135. löggjafarþing — 95. fundur,  28. apr. 2008.

hvíldartímaákvæði bílstjóra og verð á dísilolíu.

[15:26]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Öllum er ljóst að samgöngur í nútímaþjóðfélagi skipta sköpum fyrir atvinnulífið og borgara þessa lands og fyrir liggur að í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er kveðið á um stórátak í samgöngumálum.

Á undanförnum dögum hefur ríkt ófremdarástand. Vörubílstjórar hafa gert ákveðnar kröfur og farið á fund ráðherra, m.a. samgönguráðherra. Ráðherra hefur brugðist við með ákveðnum hætti.

Ég vil spyrja hæstv. samgönguráðherra út í atriði sem brenna hvað heitast á þessari stétt manna en þau varða breytingar á hvíldartíma bifreiðarstjóra. Hvað hefur ráðherra gert í því og til hvaða aðgerða hyggst hann grípa? Þá skiptir máli hvernig slíkar reglur eru útfærðar og hvaða möguleiki er til þess að útfæra þær á þann veg að ekki þurfi að fylgja því upp á mínútu að menn séu sektaðir eða beittir viðurlögum ef farið er fram úr tímaviðmiðum. Ég vil spyrja hæstv. samgönguráðherra með hvaða hætti hann treystir sér til að koma til móts við bifreiðarstjóra hvað það varðar.

Verð á dísilolíu skiptir líka máli hvað þetta varðar og snertir einnig samgöngur í landinu, vöruflutninga, vísitölu og lækkun verðbólgu. Þessar stóru bifreiðar nota almennt dísilolíu. Það er spurningin um það, miðað við þau fyrirheit sem gefin hafa verið, hvort það sé stefna í samgöngumálum að verð á dísilolíu verði lægra en verð á bensíni. Það skiptir gríðarlega miklu máli að svo verði vegna þess að þessar stóru vöruflutningabifreiðar eru almennt reknar á dísilolíu. Lækkun á verði dísilolíu mundi lækka vöruverð í landinu.