135. löggjafarþing — 96. fundur,  29. apr. 2008.

breytt stjórn fiskveiða í samræmi við úrskurð mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

339. mál
[16:37]
Hlusta

Flm. (Jón Magnússon) (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Ellert B. Schram segist vera efnislega sammála þeirri tillögu sem hér er flutt og hefði verið flutningsmaður ef honum hefði gefist kostur á. Því miður var hann staddur erlendis þegar tillagan var í undirbúningi og frá henni gengið. Annars hefði honum að sjálfsögðu verið boðið að vera með og ég leitaði eftir því en það er annað mál.

Baráttan gegn óréttlætinu tekur aldrei enda. Menn geta aldrei gefið sér það að þó að múrar ófrelsis og óréttlætis standi muni þeir gera það um eilífð. Ef fólkið í Moskvuborg hefði gert það þegar skriðdrekar kommúnistastjórnarinnar fóru inn í borgina til að berja niður sjálfstæðisvitund og sjálfstæðishreyfingu gegn kommúnismanum væri kommúnisminn sennilega enn við lýði. Ef Boris Jeltsin hefði ekki sagt: „Þetta er vonlaus barátta, ég fer ekki að klifra upp á skriðdreka,“ væru múrar ófrelsisins hugsanlega enn um miðja Evrópu. Baráttan fyrir réttlætinu tekur aldrei enda og við megum aldrei gefa okkur að málstaðurinn sé vonlaus. Ég ætla að benda hv. þm. Ellerti B. Schram á þetta.

Það er rangt að meiri hluti sé á þingi fyrir því að viðhalda kvótakerfinu. Vinstri grænir, Frjálslyndir og Samfylkingin hafa ákveðna stefnu um að afnema eigi kvótakerfið (Gripið fram í.) og formaður Framsóknarflokksins hefur gefið þá yfirlýsingu líka. Þessu óréttláta gjafakvótakerfi er við haldið í dag eingöngu vegna stuðnings Samfylkingarinnar, þvert á samþykktir flokksins.