135. löggjafarþing — 96. fundur,  29. apr. 2008.

breytt stjórn fiskveiða í samræmi við úrskurð mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

339. mál
[18:50]
Hlusta

Flm. (Jón Magnússon) (Fl):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þá umræðu sem hér hefur farið fram í dag um þingsályktunartillögu okkar sex þingmanna, þriggja frá Frjálslynda flokknum og þriggja frá þingflokki Vinstri grænna. Allir þeir sem hafa tjáð sig í málinu, allir þeir þrír hv. þingmenn, hafa með einum eða öðrum hætti lýst stuðningi við þá þingsályktunartillögu sem hér er um að ræða og það er vel. Eingöngu málsvari Sjálfstæðisflokksins við umræðuna hefur lýst sig algjörlega andvígan og telur að kvótakerfið sé ágætt og því eigi ekki að breyta í neinu.

Ég tel að það skipti okkur máli að þekkja söguna. Við þurfum að nota söguna til þess að draga lærdóm af henni en við eigum ekki að láta hana þvælast fyrir okkur og þess vegna hefur mér fundist mjög kærkomið að verða vitni að því að þeir þingmenn Framsóknarflokksins sem hér hafa tjáð sig í dag hafa lýst því yfir afdráttarlaust að þeir telji nauðsynlegt að fara að áliti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna og gera þær breytingar á kvótakerfinu sem kveðið er á um í því áliti.

Ég er líka mjög ánægður með það líka að þingmenn Samfylkingarinnar, þar á meðal hæstv. iðnaðarráðherra, hafa tjáð sig með þeim hætti að fara þurfi að áliti mannréttindanefndarinnar og gera þær breytingar sem mælt er fyrir um í því áliti. Ég lít því þannig á að í þessum umræðum hafi komið fram að breiður meiri hluti sé fyrir því að gera þær lagfæringar sem þarf að gera til þess að kvótakerfið uppfylli þau skilyrði að þau standist mannréttindi, að þau standist þær niðurstöður og forsendur sem koma fram í áliti meiri hluta mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna og það er vel.

Í hnotskurn er þar spurningin um þetta, að forréttindin í núverandi kerfi myndi ímynd varanlegs eignarréttar sem veitt voru upphaflegum handhöfum kvótans, að það sem sagt standist ekki, að það sé ekki byggt á sanngjörnum forsendum. Mér hefði fundist eðlilegt — af því að í desember sl. fékk ríkisstjórn Íslands að vita um þessa niðurstöðu mannréttindanefndarinnar, töluvert áður en aðrir landsmenn fengu að vita um hana — að þegar hefði verið brugðist við og ráðstafanir gerðar til þess að lagfæra og breyta, ekki fara í skotgrafirnar og segja: Þetta er ekki bindandi að þjóðarétti, heldur hafa frumkvæði að því, gera ráðstafanir strax og segja: Við Íslendingar ætlum að vera fyrirmyndarþjóð og fara að mannréttindum í hvívetna. Mannréttindi eru algild og við eigum að virða þau og við eigum að vera stolt af því sem þjóð að virða mannréttindi og það er það sem málið snýst um.

Í stjórnarsáttmálanum, eins og ég vék að, er talað um að tryggja skuli stöðugleika í sjávarútvegi og að gerð verði sérstök athugun á reynslunni af aflamarkskerfinu við stjórn fiskveiða. Sú athugun hefur ekki farið fram, engir tilburðir eru til þess að uppfylla þetta ákvæði kvótakerfisins. Við flutningsmenn þessarar þingsályktunartillögu — og það skal ítrekað — teljum að núverandi fiskveiðistjórnarkerfi sé ósanngjarnt, að það brjóti gegn jafnrétti manna og einnig jafnræðisreglu íslensku stjórnarskrárinnar. Við teljum að verulegur vafi sé á því að lög um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006, samrýmist atvinnufrelsisákvæði 75. gr. stjórnarskrárinnar um atvinnufrelsi.

Mér fannst mjög ánægjulegt að þrátt fyrir þá þvergirðingslegu afstöðu sem einkennt hefur málflutning ráðherra og hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins í þessu máli skuli þann 13. janúar sl. hafa birst leiðari í Morgunblaðinu þar sem niðurlagsorð eru með þessum hætti, með leyfi hæstv. forseta:

„Þetta er ekki í fyrsta sinn, sem réttindabarátta íslenskra borgara, sem ekki hafa hlotið náð fyrir augum stjórnvalda eða dómstóla á Íslandi, hlýtur stuðning frá þeim sem fjalla um mannréttindi í útlöndum. Hvað skyldi valda þessari tilhneigingu stjórnvalda og dómstóla til að brjóta á réttindum fólks?“

Ég spyr: Er ekki komið nóg af því góða? Gerum við ekki þá kröfu að farið sé að mannréttindum?