135. löggjafarþing — 99. fundur,  6. maí 2008.

fæðingar- og foreldraorlof.

387. mál
[15:57]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil bara lýsa því yfir að við erum greinilega sammála í meginatriðum í þessu máli, við hv. þm. Ármann Kr. Ólafsson, að jafna þurfi þetta með einhverjum hætti. Hins vegar er hæstv. ráðherra óneitanlega í erfiðri stöðu ef hún þarf að greiða atkvæði gegn því mikla baráttumáli sem hún barðist fyrir á síðasta kjörtímabili, hafandi flutt það í mörg ár. Ég held að allir geti verið sammála um það.

Það er rétt sem hv. þingmaður sagði í ræðu sinni áðan og í andsvari að við þurfum að hafa stöðu ríkissjóðs undir í þessu og hárrétt að við værum í mun erfiðari stöðu til að bregðast við aðstæðum á fjármálamarkaði í dag ef ríkissjóður stæði ekki eins vel og raun ber vitni. Við hv. þingmaður erum sammála um það. Hins vegar erum við örugglega ekki sammála um það hvernig ríkisstjórnin hefur brugðist við þeim aðsteðjandi vanda sem uppi er. Við stjórnarandstæðingar hefðum viljað sjá ríkisstjórnina fara miklu fyrr í ákveðnar aðgerðir hvað það varðar og úrræðaleysið sem mér finnst ríkja á stjórnarheimilinu er að verða þjóðinni mjög dýrt .

Hins vegar skal ég fagna því að aðilar vinnumarkaðarins og ráðherrar í ríkisstjórninni ætli að hittast í dag, akkúrat núna klukkan fjögur, held ég, og við skulum vona að það beri einhvern árangur.