135. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2008.

sameining heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni.

564. mál
[12:24]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Í þessum efnum er eðlilegt að skoða hvert mál fyrir sig og ástæðulaust að leggjast gegn breytingum að óathuguðu máli. Ég er tilbúinn að skoða þessa hluti ef hæstv. ráðherra hefur einhvern áhuga á því að hafa samráð og samstarf við þingmenn kjördæmisins um þetta mál.

Ég tók eftir því, virðulegi forseti, að ekki er gert ráð fyrir að sameina sjúkrahúsin á Vesturlandi, Stykkishólmi og Akranesi heldur aðeins heilsugæslustöðvar. Ég velti því fyrir mér hver sé skýringin á því. Ég er dálítið gagnrýninn á samráðsskortinn í þessu máli. Ég er dálítið tortrygginn á breytingar í ljósi þess sem maður hefur séð þróunina verða þar sem slíkt hefur átt sér stað. Við höfum nýleg dæmi um slæma afleiðingu slíkra ákvarðana sem hafa gengið á annan veg en sagt var, til dæmis á forsíðu eins Reykjavíkurdagblaðanna í dag þar sem greint er frá því að á öldrunarheimilinu á Þingeyri er svo komið að það á að loka því og flytja vistmennina til að spara peninga í sumarleyfum starfsmanna. Það er ekki lengur neinn læknir á Þingeyri. Það er ekki lengur neinn læknir búsettur á Flateyri og það er enginn læknir búsettur á Suðureyri þannig að það er bara læknir á Ísafirði. Ég spyr: Hvernig verður þróunin í sameinaðri stofnun milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur svo dæmi sé tekið? Verður eitthvað úr áformum heimamanna í Bolungarvík um uppbyggingu þeirrar stofnunar? Það er fyllsta ástæða til þess, virðulegur forseti, fyrir hæstv. ráðherra að hafa samráð um framkvæmd og útfærslu í þessum efnum, ekki bara við þá sem lögbundið er heldur kannski ekki hvað síst við Alþingi þar sem hlutirnir eiga að verða ákveðnir.