135. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2008.

viðbrögð við áliti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

592. mál
[14:52]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég vil spyrja hæstv. landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra út í álitið sem mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna gaf fyrir ekki löngu, það var 24. október á síðasta ári. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra út í það hvort til standi að vera með einhvers konar samráð um það hvernig taka eigi á þessum málum. Við eigum að skila svari 11. júní og klukkan tifar, tæplega 40 dagar til stefnu. Það er stutt í að við þurfum að skila svari.

Þegar þetta mál kom upp voru yfirlýsingar frá hæstv. ráðherrum ríkisstjórnarinnar mjög misvísandi. Bæði hæstv. landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra og forsætisráðherra töluðu um að kannski þyrfti ekki að breyta lögunum, það væri frekar ólíklegt. Hæstv. utanríkisráðherra talaði hins vegar um að það þyrfti nú aldeilis að bregðast við og gaf í skyn að gera þyrfti breytingar á lögum.

Um daginn voru þessi mál rædd hér og þá kom fram hjá hv. þm. Karli Matthíassyni, sem er talsmaður Samfylkingarinnar í sjávarútvegsmálum, að hann hafði ekki hugmynd um hvar málið væri statt. Ekki virðist mikið samráð vera í Samfylkingunni og maður hefur á tilfinningunni að málið sé unnið í einhverju lokuðu umhverfi uppi í ráðuneyti. Hjá hv. þm. Ellerti B. Schram komu fram ákveðnar vísbendingar um að svarið sem kæmi frá okkur yrði hugsanlega ekki pólitískt svar heldur nokkurs konar embættismannasvar, ef þannig má orða það.

Ég vil því gjarnan heyra hvað hæstv. ráðherra hefur að segja um þessi mál. Verður svarið sem við munum gefa bráðlega, íslensk stjórnvöld, með einhverjum hætti skýrt? Eða verður bara sagt: Við munum bregðast við og ekkert gefið nánar út um það á þessu stigi? Eða hvernig ætlar hæstv. ráðherra að halda á málinu? Og á eitthvað að vera með samráð við aðra flokka?

Í röksemdafærslu mannréttindanefndarinnar má lesa út þá túlkun að niðurstaðan sé grundvölluð á ástæðum sem samsvari eignastöðu, eins og kvótinn sé orðinn að eign. Er það ekki algjörlega ljóst, virðulegur forseti, að hæstv. landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra geti staðfest það að kvótinn sé ekki eign? Í 1. gr. laga um fiskveiðistjórn okkar Íslendinga kemur fram að kvótinn er sameign þjóðarinnar og alveg skýrt í nefndarálitinu eða í greinargerðinni með því frumvarpi þegar það var samþykkt að ekki er nein eignarréttarstaða að skapast í kerfi okkar eins og það er í dag. Ég vil því gjarnan fá að heyra hvað hæstv. landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra hefur að segja um svör okkar og þetta með eignina á kvótanum.