135. löggjafarþing — 101. fundur,  8. maí 2008.

stefna ríkisstjórnarinnar í heilbrigðismálum.

[11:39]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni fyrir afskaplega málefnalega umræðu og reyndar er það svo að þingmenn Framsóknarflokksins hafa almennt fjallað mjög málefnalega um málaflokkinn. En það væri kannski betur að það ætti við hjá öllum en látum það liggja milli hluta.

Hér hefur verið talað um verk Sjálfstæðisflokksins þennan skamma tíma og ríkisstjórnarinnar, Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar, og þá væri kannski ágætt að vitna í viðtal við formann Félags hjartalækna. Hann segir í Fréttablaðinu 4. maí, með leyfi forseta:

„Vinnubrögðin sem samninganefnd hefur sýnt í þessu máli hafa verið fagleg og vönduð og útgangspunkturinn hefur verið að taka tillit til þjónustuþarfar hjartasjúklinga. Sú var ekki raunin fyrir tveimur árum og því sáum við þá engan annan kost í stöðunni en að segja okkur frá samningum.“

Varðandi árangurinn þá kemur í ljós að meðan allt hækkar í þjóðfélaginu, því miður, þá lækka lyfin, virðulegi forseti, samheitalyfin sem menn eru búnir að reyna að lækka ég veit ekki hvað lengi. Talsmaður stærsta fyrirtækisins sagði að það væri ljóst að stjórnvöld væru nú loksins að fara í alvöru að lækka lyfjakostnaðinn. Við tókum, virðulegi forseti, umræðu um BUGL um daginn og hún var allt öðruvísi en áður og það er vegna þess að sú aðgerð sem menn lögðu af stað með hefur skilað árangri. Hér hefur verið minnst á augnsteinaaðgerðir en þar stendur til að fara í mikið átak til að ná niður biðlistum. (Gripið fram í.) Nei, virðulegi forseti, við erum ekki að tala um gerðir Framsóknarflokksins, við erum að tala um gerðir þessarar ríkisstjórnar.

Aðeins af því að hv. þm. Ögmundur Jónasson segir að ekki sé nógu mikið fjármagn til Landspítalans út af afköstum. Hv. þm. Ögmundur Jónasson segir að leið ríkisstjórnar, virðulegi forseti, sú leið að kostnaðargreina sé hárrétt. Það er það sem hann er að segja með þessum orðum.

Virðulegur forseti. (Forseti hringir.) Ég vil þakka fyrir þessa umræðu og lýsa yfir ánægju minni með hana og það er ánægjulegt að við séum að ná árangri í þessum málaflokki þótt við höfum ekki starfað í honum (Forseti hringir.) nema í 10 mánuði.