135. löggjafarþing — 102. fundur,  8. maí 2008.

fríverslunarsamningur milli EFTA-ríkja og Kanada.

543. mál
[18:09]
Hlusta

Frsm. utanrmn. (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni að fríverslun er mikils virði og mjög mikilvægt að net fríverslunarsamninga sé svo gott sem kostur er. Það er líka mikilvægt að fríverslun og allar viðskiptahindranir séu úr vegi og raunveruleg fríverslun tryggð og viðskipti þvert á landamæri. Þeir fríverslunarsamningar sem EFTA hefur gert hafa í ríkum mæli snúist um vöruviðskipti en í þessum tiltekna samningi er gert ráð fyrir frekari viðræðum um þjónustuviðskipti í kjölfarið.

EFTA-ríkin hafa unnið að fríverslunarsamningagerð við Kína og Indland og önnur ríki. Ég tel að það sé mikils virði. Fríverslunarsamninganet okkar þarf að verða enn stærra og betra. Það er hins vegar erfitt við það að eiga því að við erum ekki stórt markaðssvæði og EFTA-ríkin sjálf eru ekki heldur stórt markaðssvæði. Það er dýrt og flókið að gera fríverslunarsamninga og ekki alltaf mögulegt fyrir EFTA-ríkin að fá að gera fríverslunarsamninga við fjarlæg ríki. Því hafa EFTA-ríkin í flestum tilvikum gengið í fótspor Evrópusambandsins, þ.e. þegar Evrópusambandið hefur gert við ríki fríverslunarsamninga eða EFTA-ríkin fylgt í kjölfarið. Síðan skiptir auðvitað máli fyrir fríverslun að ný lota samninga innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar skili árangri þannig að enn frekari fríverslun verði möguleg. Þjónustuviðskipti aukast þannig enn til muna og eins viðskipti með landbúnaðarvörur eins og stefnt er að núna í síðustu viðræðulotunni, Doha-lotunni, innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar.