135. löggjafarþing — 102. fundur,  8. maí 2008.

tekjuskattur.

325. mál
[20:12]
Hlusta

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Pétur H. Blöndal) (S):

Frú forseti. Við höfum átt hér ákaflega ánægjulega og fróðlega umræðu um þetta mál í allan dag og hefur sitt sýnst hverjum. Ég vil byrja á því að segja að sumir telja sig eiga fiskinn í sjónum sem syndir þar um óveiddur, aðrir telja sig eiga fugla í skógi en það hefur löngum verið sagt að betri sé einn fugl í hendi en tveir í skógi, og svo er með skatttekjur ríkisins af þessum skattstofni. Það er nefnilega búið að vera mjög lengi ákvæði í skattalögum, það kemur fram í 18. gr. laga um tekjuskatt, að fjárfesti menn aftur fyrir hlutabréf fellur hagnaðurinn ekki til af sölu hlutabréfa. Þetta er sambærilegt ákvæði og á við um íbúðarhúsnæði, talandi um að stórgrósserar njóti þessa ákvæðis eingöngu. Ég veit ekki betur en að allir Íslendingar undanfarið hafi verið að selja íbúðir meira og minna. Talið er að um 10–15% af þjóðinni skipti um íbúð á ári. Íbúðaverðmæti á Íslandi er 2.300 milljarðar og við erum því að tala um að svona 230 milljarðar skipti um hendur á ári. Ég hugsa, miðað við þá hækkun sem verið hefur undanfarið, upp undir tvöföld, að þá sé helmingurinn af þessum sölutölum hagnaður og hann er samkvæmt nákvæmlega sömu skattalögum, reyndar 17. gr., með leyfi forseta:

„Hagnaður af sölu íbúðarhúsnæðis telst að fullu til skattskyldra tekna á söluári hafi maður átt hið selda húsnæði skemur en tvö ár, en hafi hann átt hið selda í tvö ár eða lengur telst söluhagnaðurinn ekki til skattskyldra tekna.“

Þarna nýtur almenningur í landinu, launþegar landsins, skattfrelsis, menn borga ekki skatt af söluhagnaði ef þeir hafa átt húsnæðið lengur en tvö ár, það er svona hefðin og reyndin. Þetta ákvæði er eldgamalt. Ég reikna með að það sem einstaklingar hafa notið skattfrelsis vegna söluhagnaðar af íbúðarhúsnæði séu svona 200–300 milljarðar á ári og þar er skatturinn 10% eins og kunnugt er. Þetta á því ekki bara við um stórgróssera.

Mikil umræða var í nefndinni um þann hagnað sem menn eru búnir að afla og bíður í tvö ár — það er heimilt að geyma hagnaðinn í tvö ár — upp á 330 milljarða. Auðvitað munu menn endurfjárfesta fyrir hann til að sleppa við skattinn, það er alveg fyrirséð. Menn nota ákvæði 18. gr. til þess, vegna þess að þeir geta fjárfest í hverju sem er, hvaða hlutabréfum sem eru, eigin dótturfélögum o.s.frv. Þetta hafa menn verið að gera. Þess vegna eru það ímyndaðar tölur sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson er að reikna hér út. Hann fær aldrei þessar tekjur, hann getur leikið sér með þær eins og hann vill en það er eins og með fuglana í skóginum, ef þeir eru ekki í hendi eru þeir einskis virði.

Þetta eru rökin sem nefndin beygði sig fyrir, fyrir utan það að í ljós er komið, eins og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson sagði og hann nefndi tölu, að 400 milljarðar hafa streymt til útlanda, frú forseti, frá Íslandi til Hollands. Viljum við það? Nei, ég vil það ekki. (Gripið fram í.) Jú, ég er nefnilega að bjóða jafngóð kjör og í Hollandi, það er engin ástæða til að flytja peningana til Hollands núna, af því að við erum að taka upp nákvæmlega sömu reglur og sumir segja jafnvel eitthvað betri reglur en Hollendingar. Sumir segja það.

Hvers vegna skyldi þessi söluhagnaður vera skattfrjáls í Hollandi og Noregi? Af hverju er hann það? Hefur einhver velt því fyrir sér? Hefur hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson hlustað á þá röksemdafærslu sem ég kom með við 1. umr. málsins? Það er dálítið leiðinlegt, frú forseti, að þurfa að endurtaka aftur og aftur sömu rökin, af því að menn eru ekki viðstaddir umræðuna eða gleyma þeim. Málið er það, og ég útskýrði það þá, að þegar hlutabréf eru seld á hærra verði en innra virði fyrirtækisins, þá er það vegna þess að kaupandinn býst við hagnaði í framtíðinni umfram ávöxtunarkröfu á markaði. Hann býst við að ná fram meiri hagnaði út úr fyrirtækinu en sú ávöxtun sem almennt gildir á markaði fyrir áhættulaust fé. Þess vegna borgar hann hærra verð fyrir bréfin og þá myndast hagnaður hjá þeim sem seldi. Hann er í rauninni að selja framtíðarhagnað fyrirtækisins umfram venjulega ávöxtun. Þegar þessi hagnaður kemur inn í framtíðinni verður hann skattaður hjá viðkomandi fyrirtæki, hann verður skattaður þar. Því er um tvísköttun að ræða þegar þetta er gert svona, hagnaðurinn verður skattaður inni í fyrirtækinu þegar hann kemur til í framtíðinni. Þess vegna hafa menn ákveðið að skattleggja hann ekki, það eru rökin á bak við þetta. Fyrir utan það að þegar ávöxtunarkrafan í heiminum hækkar lækkar verð á öllum hlutabréfum eins og við höfum upplifað núna síðustu tíu mánuðina. Þá fellur allur þessi gervigróði, hann fellur og hverfur, þannig að þeir 330 milljarðar sem komu fram í greinargerð með frumvarpinu verða miklu, miklu minni tala í lok þessa árs ef svo heldur fram sem horfir. Við erum því að tala um fugla í skógi, frú forseti, en ekki raunverulega fugla í hendi.

Þá vildi ég gjarnan koma inn á umsögn ASÍ sem mikið hefur verið rædd, það er eins og ASÍ hafi einhvers konar löggjafarvald hér á landi. Þeir segja hér, með leyfi forseta, þetta er fyrsta umsögn þeirra:

„ASÍ leggst gegn þeirri breytingu sem lögð er til, að söluhagnaður lögaðila af hlutabréfum verði skattfrjáls en á móti falli frádráttur vegna kostnaðar við hlutabréfaviðskiptin niður.“

Ekkert meira um það. Það eru engin rök fyrir því af hverju þeir eru á móti þessu, ekki orð. Svo segja þeir:

„Þrátt fyrir að á undanförum árum hafi verið gerðar veigamiklar breytingar á skattumhverfi lögaðila hefur það ekki leitt til aukinnar fjárfestingar erlendra aðila hér á landi og heldur ekki dugað til að halda fé í landinu.“

ASÍ segir þetta. Þeir segja einmitt það sem við erum að segja, það vantar erlendar fjárfestingar inn í landið og það vantar að halda íslensku fé í landinu. ASÍ segir einmitt það í umsögninni. Hvað fleira þurfa menn til að átta sig á því að við þurfum að gera eitthvað í málunum?

Í seinni umsögninni segja þeir, með leyfi forseta:

„ASÍ leggst gegn þeirri breytingu að gera söluhagnað af afleiðusamningum sem seldir eru á skipulegum verðbréfamörkuðum, þar sem undirliggjandi verðmæti eru eingöngu hlutabréf.“

Ekki orð meir. Af hverju eru þeir á móti þessu? Ekki orð um það.

Svo segja þeir aftur af því að þeir leggjast gegn þeirri breytingu, sérstaklega því að falla frá kostnaðinum:

„Ætla má að þetta sé gert til einföldunar þar sem upphaflegt ákvæði bauð upp á mjög flókna skattframkvæmd.“

Þetta segja menn sjálfir hjá ASÍ. ASÍ varar eindregið við þessari breytingu og því fordæmi sem hún skapar þrátt fyrir að þetta bjóði upp á mjög flókna skattframkvæmd.

Það er nefnilega þannig að þessi kostnaður getur verið af ýmsum toga. Fyrirtæki tekur lán. Á sama tíma kaupir það vörubíl og hlutabréf og þá er spurningin: Var lánið ætlað til að kaupa vörubílinn eða var það ætlað til að kaupa hlutabréfin? Hver ætlar að dæma um það og kostnaðinn af láninu hvort er hann af hlutabréfinu eða vörubílnum? Það er útilokað að finna út úr því, menn geta rifist um það endalaust. Kostnaðurinn er því alls ekki á hreinu.

Síðan kom í ljós þegar við fórum að skoða þetta að kostnaðurinn dreifist yfirleitt á mörg ár. Menn keyptu hlutabréf einhvern tíma fyrir þrem, fjórum árum og selja þau í dag. Kostnaðurinn dreifist á mörg ár en það er eingöngu kostnaður síðasta árs sem meiningin var að taka til með þessum vafasömu formerkjum. Sá kostnaður var bara síðasta árið, hann gat verið fyrir einn mánuð, það skipti ekki máli. Menn gátu flutt hann eins og þeir vildu yfir á annan helming þannig að þessi kostnaður sem var í upphaflega frumvarpinu skipti í rauninni ekki stóru máli. Þess vegna var skrefið stigið til fulls af skynsemisástæðu og vegna þess að hlutirnir verða svo miklu einfaldari og því var ákveðið að fella allan kostnaðinn niður. Þarna er bara verið að horfast í augu við raunveruleikann, hann er svona.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði að við værum að búa til bómullarumhverfi og þetta væri gert fyrir erlenda fjárfestingu og að almenningur væri skattpíndur. Hann er ekki skattpíndur meira en svo að ég nefndi hér söluhagnaðinn af íbúðarhúsnæði sem almenningur nýtur í stórum stíl, allir sem selja íbúðirnar sínar hafa notið þess að söluhagnaður af íbúðarhúsnæði er skattfrjáls. Það eru ekki litlar tölur þegar menn selja íbúð kannski upp á 80 milljónir, einbýlishús í Reykjavík. Yfir helmingurinn, sennilega um 60 milljónir eru hagnaður og hann er skattfrjáls. Af því þyrftu menn að borga fjármagnstekjuskatt upp á 6 milljónir en gera ekki, frú forseti. Þarna er verið að aðstoða litla manninn. Líka þá sem eiga minni íbúðir í blokk og selja íbúð fyrir 40 milljónir eða 30 milljónir og hagnast um hugsanlega 20 milljónir. Þar er líka verið að aðstoða menn, þeir borga þá ekki 2 milljónir í fjármagnstekjuskatt. Við erum líka að aðstoða litla manninn.

Við höfum nefnilega verið að lækka skatta, Sjálfstæðisflokkurinn, allt síðasta kjörtímabil sem hefur valdið mjög miklu góðæri. Það er bara hægt að segja það með einu orði, góðæri. Laun hafa hækkað eins og hvergi annars staðar í heiminum og ef það er ekki góð niðurstaða, frú forseti, þá veit ég ekki hvað er góð niðurstaða. Atvinnuleysi er nánast ekki neitt, sem er mjög gott sérstaklega fyrir tekjulágt fólk sem á erfitt með að fá vinnu, mjög gott fyrir öryrkja sem eiga erfitt með að fá vinnu. Ég tel að atvinnuleysi sé eitt það versta sem getur komið fyrir nokkurn mann og það sé hlutverk stjórnmálamanna að halda atvinnuleysi eins lágu og hægt er og það hefur tekist mjög vel með þessum skattalækkunum. Svo hafa skattar auk þess verið lækkaðir eins og hátekjuskatturinn sem var felldur niður, sem var farinn að bíta í venjulegt launafólk og sjómenn.

Ég tel því ekki að við séum að búa til neitt bómullarumhverfi og ef svo er þá er það bara fínt því að það er nefnilega þannig að atvinnulífið stendur undir velferðarkerfinu. Atvinnulífið borgar há laun eða lág laun ef það er illa rekið eða er í lélegu umhverfi. Ef það er í góðu umhverfi getur það borgað há laun og fólk borgar þá góða skatta af þeim háu launum auk þess sem það borgar þá meiri neysluskatta o.s.frv.

Hv. þm. Jón Bjarnason sagði aftur og aftur að það væri verið að gefa eftir skatt sem hefði verið svikinn. Að sjálfsögðu er þetta ekki svikinn skattur, menn fara nákvæmlega eftir skattalögunum. Það stendur í 18. gr. að ef menn kaupa hlutabréf þurfi þeir ekki að borga skatt, það stendur í lögunum, menn fara bara beint eftir lögunum. Það er enginn að svíkja undan skatti. Þetta er algjörlega frábrugðið því þegar menn eru að gefa út viðskipti nótulaust o.s.frv.

Svo ætla ég rétt í lokin að koma inn á tímasetninguna, það hefur dálítið verið rætt um tímasetningu og menn hafa rætt um erfiða stöðu þjóðarbúsins og erfiða stöðu launþega o.s.frv. Ég held að fyrir íslenskt atvinnulíf sé mjög mikilvægt einmitt núna í stöðunni að gefa merki um það að stjórnvöld standi með atvinnulífinu og það er það sem þetta frumvarp gerir. Það sýnir að menn ætli að búa til gott umhverfi á Íslandi eins og er í Hollandi, eins og er í Noregi og við erum að lækka skatta líka. Við erum að gefa erlendum fjárfestum merki, erlendu umhverfi, erlendum lánveitendum um að stjórnvöld standi með atvinnulífinu. Þess vegna er ég mjög ánægður með að umræðan skuli vera svona mikil á Alþingi. Þó að hún hafi verið mjög neikvæð er hún það mikil að hún vekur athygli á því að verið sé að gera heilmikið fyrir íslenskt atvinnulíf og það er gott. Ég þakka þeim þingmönnum sem hafa gagnrýnt þetta sem mest því að þeir hafa vakið athygli á málinu og það er jákvætt. Það er nefnilega þannig, frú forseti, að það er svo mikilvægt fyrir Íslendinga alla, launþega jafnt sem aðra, að íslensk fyrirtæki fái gott lánshæfismat í útlöndum, það skiptir sköpum núna. Umræðan er mjög góð til að vekja athygli á því að íslensk stjórnvöld, þeir tveir stjórnarflokkar sem að þessu standa, standa þátt á bak við íslenskt atvinnulíf því að þeir vita að ef íslenskt atvinnulíf stendur sig ekki kemur það niður á launþegum, það kemur niður á jafnrétti, það kemur niður á velferðarkerfinu, það kemur niður á öllu. Þess vegna er svo mikilvægt að íslenskt atvinnulíf standi sig og njóti besta umhverfis sem hægt er að bjóða í heiminum og það er það sem við stefnum að. Þegar við gerum það geta íslensk fyrirtæki borgað há laun og mikla skatta og íslenskir launþegar geta borgað háa skatta sem standa þá undir góðu og skilvirku velferðarkerfi.