135. löggjafarþing — 102. fundur,  8. maí 2008.

tekjuskattur.

325. mál
[20:27]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst ástæða til að víkja að nokkrum atriðum í ræðu hv. þingmanns, það er svo óvíst að mér endist tími til að koma að því öllu.

Fyrst vil ég leiðrétta það sem fram kom í máli hv. þingmanns um söluhagnað af íbúðarhúsnæði. Þingmaðurinn sagði aðeins hálfan sannleikann. Staðreyndin er sú að fyrir einstakling sem á venjulegt íbúðarhúsnæði og hagnast á sölu þess þá er það ekki skattlagt, en sett eru takmörk fyrir því hversu mikið það má vera og það er aðeins að því marki að heildarrúmmál íbúðarhúsnæði seljanda fari ekki fram úr 600 rúmmetrum ef um einstakling er að ræða en 1.200 rúmmetrum ef um hjón er að ræða. Eigi einstaklingur stærra hús eða fleiri þannig að samanlagt pláss er meira en þetta þá er tekinn skattur af söluhagnaði af því sem umfram er. (Gripið fram í.) Já, það er ríflegt sem fólki er leyft að eiga af íbúðarhúsnæði og hagnast af sölu án þess að borga skatt en það þýðir líka, sem er kannski hin hliðin á málinu, að það eru býsna margir sem hafa tapað á sölu íbúðarhúsnæðis og hafa ekki fengið neina bót sinna mála í þeim efnum. (Gripið fram í.)

Ég held að kjarni málsins sé sá, virðulegi forseti: 336 milljarðar voru taldir fram árið 2006 sem söluhagnaður hjá hlutafélögum. Af því ber að borga um 60 milljarða kr. í tekjuskatt af hagnaði. Fyrirtækin frestuðu þessum hagnaði, skattskuldbindingin er skráð í bækur fyrirtækjanna og hún rennur út á þessu ári og þau eiga að borga skattinn á þessu ári (Forseti hringir.) nema þau kjósi að endurfjárfesta í annarri fjárfestingu en þá lækkar líka sú fjárfesting þannig að skatturinn vaknar aftur upp síðar.