135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[12:28]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Jú, heilbrigðismálin hafa vissulega komið til umfjöllunar hér á Alþingi af og til. Við tókum umræðu um úthýsingu á störfum læknaritara svo dæmi sé tekið. Við tókum umræðu um það þegar ríkisstjórnin ákvað að bjóða út heila deild á öldrunardeild Landspítalans og önnur málefni sem við höfum tekið fyrir og tengjast heilbrigðisumræðunni höfum við reynt að fá hingað til umræðu.

Ég hef engar efasemdir um að það vaki ekki fyrir okkur öllum að bæta þjónustuna, okkur greinir hins vegar á um hvaða leiðir séu heppilegar í því efni. Hér er vísað til reynslu annarra þjóða. Eigum við ekki að setjast yfir málin saman og skoða þá reynslu? Fyrsta þingmálið sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð flutti sl. haust var nákvæmlega að við gerðum þetta. Nú spyr ég: Þó að það væri ekki nema sá hluti tillögunnar sem snýr að rannsókn á reynslu annarra þjóða af þeim kerfisbreytingum sem hér er verið að boða teldi ég það skref fram á við að við færum yfir þá reynslu og mætum hana. Ég held að það sé mjög hollt og gott ef við gerum þetta og fólk geti þá skipt um skoðun ef því er að skipta og kem ég aftur að því að vísa ekki í eitthvað sem gerðist í gær eða fyrradag. Við erum stödd á deginum í dag og horfum inn í framtíðina en við getum lært af því sem gerðist í gær og við getum lært af þeim kerfisbreytingum sem hafa t.d. verið innleiddar í Bretlandi. Samkvæmt mínum heimildum og þeim bókum sem ég hef lesið og þeim skýrslum sem ég hef farið í gegnum, sem eru ekki mjög fáar, (Forseti hringir.) er reynslan af þessum kerfisbreytingum ekki góð, hún er m.a.s. mjög slæm.