135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[16:26]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér fannst hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir beina orðum sínum það oft að málflutningi okkar þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og okkar stefnu og okkar vinnubrögðum, þ.e. að við værum ekki samkvæm sjálfum okkur með afgreiðslu um málið þar sem við hefðum greitt atkvæði gegn því að taka málið á dagskrá í dag. Málið kom seint fram en við höfum greitt atkvæði með öðru máli, um almannatryggingafrumvarp, sem einnig kom mjög seint fram og veitt því brautargengi á þinginu. Ég vil benda hv. þingmanni á að það frumvarp sem kom fram um almannatryggingar var lítið að vöxtum, einfalt — laut að réttarbótum til öryrkja sem allir voru sammála um og allir vildu vinna að framgangi málsins. Þetta var einfalt mál, þetta var réttindamál og það er mjög auðvelt að verða við ósk ríkisstjórnarinnar um að koma með frumvarp til hagsbóta fyrir öryrkja og aldraða.

Það mál sem hér hefur komið fram og sem beðið hefur verið eftir, um sjúkratryggingar, er aftur á móti mál sem við höfum kallað eftir frá því fljótlega eftir áramótin vissum við að það var í smíðum, til að geta farið vandlega yfir það. Það er mikið að vöxtum og margir þurfa að koma að því, frumvarpið lesa aðilar út frá mismunandi forsendum og sjónarmiðum. Vísað er til þess að verið sé að fara eftir sænskum og breskum forskriftum en þetta viljum við skoða og þess vegna viljum við ekki að málið fari með hraðferð í gegnum þingið. Ég tel því að fullt samræmi sé í atkvæðagreiðslu okkar á þinginu.