135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[16:50]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa ágætu ræðu þar sem hv. þingmaður fór yfir sviðið og spurði margra gagnlegra spurninga. Ég er sammála hv. þingmanni að það er mjög mikilvægt að hefja vinnu að sameiginlegri rafrænni sjúkraskrá sem er eitt brýnasta verkefni sem við stöndum frammi fyrir í heilbrigðismálum í dag. Það þarf að gera það með ódýrum hætti og byggja á lausnum sem vel hafa reynst annars staðar frá en vera ekki að finna upp hjólið hér heima á Íslandi.

Við eigum líka að horfa til þess, eins og hv. þingmaður nefndi, að gera sérstaklega heilsugæsluna hér á höfuðborgarsvæðinu ókeypis eða með öðrum hætti hvetja fólk til að nota hana.

Hv. þingmaður talaði aðeins um ríkisrekstur og einkarekstur, þ.e. þegar ríkið eða einkaaðilar reka þjónustueiningarnar. Hún taldi að þjónusta væri í fyrirrúmi ef ríkið ræki þjónustueiningarnar en að arðsemi væri í fyrirrúmi ef einkaaðilar rækju þær. Ég er ekki alveg jafnsannfærður um þetta. Ég held satt að segja að það kerfi ríkisrekstrar sem við höfum í dag sé mjög vont út frá þjónustu og að nú sé þjónusta ekki í fyrirrúmi heldur sé aðalatriðið að vera innan fjárheimilda. Það er það sem er í fyrirrúmi í rekstrinum í dag, þjónustan er algjört aukaatriði. Meira að segja er dæmi um að hið opinbera skipi stofnunum að skera niður þjónustu til þess að þær haldi sig innan fjárveitinga.

Ég held því að það dæmi sem hv. þingmaður nefndi af Sóltúni sé einmitt mjög gott dæmi, og allir séu sammála um að þjónustan sé góð þar.

Ég legg áherslu á að í því frumvarpi sem hér um ræðir er verið að búa til eðlilega umgjörð svo að allar stofnanir, ekki bara þær sem reknar eru af einkaaðilum heldur allar stofnanir, geti fengið að njóta slíks rekstrarumhverfis þar sem greitt er fyrir þjónustuna á forsendum þeirrar þjónustu sem veitt er. Þjónustan er lykilatriði í fjárveitingunum þar en ekki dyntir fjárveitingavaldsins. Ég held því að þetta kerfi sé til þess fallið að greiða fyrir því að allir geti haft þjónustuna í fyrirrúmi, jafnt (Forseti hringir.) einkaaðilar sem opinberar þjónustustofnanir.