135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[17:08]
Hlusta

Ellert B. Schram (Sf):

Herra forseti. Þrátt fyrir langar umræður og margvísleg vandamál og viðfangsefni í heilbrigðiskerfinu, skiptar skoðanir og mismunandi áherslur þá held ég að við getum öll verið sammála um að það heilbrigðiskerfi sem við búum við er með því besta sem þekkist í öllum heiminum. Ég held að umræðan um það frumvarp sem hér er lagt fram hafi leitt í ljós að það er ekki verið að breyta þessu kerfi, hvorki í stóru né smáu, hvort heldur það er rekið af opinberum aðilum eða einkaaðilum. Það er ekki verið að leggja á nýjan sjúklingaskatt, það er ekki verið að gera einum né neinum kleift að kaupa sig fram fyrir í röðinni. Það er ekki verið að setja heilbrigðisþjónustuna á markað sem slíka og öllum er áfram tryggður aðgangur að þessari þjónustu óháð efnahag, kyni, aldri o.s.frv. Í umræðunni hefur komið fram að fjórir af fimm stjórnmálaflokkum, fulltrúum stjórnmálaflokkanna, hafa verið jákvæðir í garð þessa frumvarps enda liggur það fyrir að frumvarpið er afrakstur af skýrslum og viðamiklum athugunum á breytingum í kerfinu, í rekstri kerfisins, og þær tillögur sem hér eru lagðar fram þurfa í sjálfu sér ekki að koma á óvart. Þær eru að mínu mati nokkurs konar lagfæring í samræmi við þær tillögur sem fram komu í áðurnefndum skýrslum og fela það í sér að reynt er að koma auknu skikki á í regluverkinu og vinnubrögðunum í því mikla kerfi sem heilbrigðisþjónustan er og hefur kallað á allt upp í fjórðung fjárlaga á undanförnum árum.

Útgjöld ríkisins hafa því miður oftar en ekki farið úr böndum. Heilbrigðiskerfið hefur notað meira fjármagn en fjárlög hafa gert ráð fyrir og þetta hefur verið vandi sem Alþingi hefur staðið frammi fyrir og fyrir vikið hefur myndast viss þreyta og togstreita sem engum er til góðs. Ég leyfi mér að fullyrða að þetta frumvarp hér til sjúkratrygginga sé viðleitni til að takast á við þennan vanda. Hér er um að ræða að skilgreina ríkið annars vegar, sem borgar brúsann, og sjúklingana og neytendurna hins vegar, sem þiggja þjónustuna, þannig að hægt sé að ganga að því nokkuð vísu, þeim verðmiða sem lagður er á hjúkrun og lækningar og þjónustu sem um er að ræða. Þetta er gegnsætt fyrirkomulag, það er talað um kaupanda og seljanda og skilgreiningar mjög skýrar.

Hér hefur verið minnst á skýrslu ríkisendurskoðanda varðandi dvalar- og hjúkrunarheimilið Sóltún þar sem því hefur verið haldið fram í skýrslunni að rekstraraðilar Sóltúns hafi fengið meira fé en reglur og ákvarðanir sögðu til um. Ég ætla ekki að gerast dómari í því máli hvor hafi rétt fyrir sér vegna þess að fulltrúar Sóltúns hafa mótmælt þessum ásökunum og úr því verður væntanlega skorið á réttum stað og réttum tíma. Ég held að þetta mál sem snýr að Sóltúni og athugasemdum ríkisendurskoðanda staðfesti nauðsyn þess að svona frumvarp nái fram að ganga sem felur í sér að allir stuðlar, allar leikreglur og öll viðmið séu skilgreind út frá hagsmunum beggja eða með tilliti til hagsmuna beggja og þá þurfi jafnvel ekki svona ágreiningsmál að koma upp eins og það sem snýr að rekstri Sóltúns. Þarna er um að ræða viðleitni til þess að kostnaðargreina hvert verk, þjónustuna, lækninguna, hjúkrunina og alla umönnun og ég held að þetta sé spor í rétta átt sem við eigum að taka undir og fagna.

Ég geri ráð fyrir því eða a.m.k. dreg ég þá ályktun af þeirri umræðu sem hér hefur farið fram að flestir ef ekki allir stjórnmálaflokkar hafi engar athugasemdir við það að ríkið skipuleggi bætt eftirlit og aukna yfirsýn af sinni hálfu í þessum viðamikla málaflokki sem hið opinbera kostar og mun áfram kosta og bera fulla ábyrgð á enda liggur það fyrir og er margítrekað í frumvarpinu að heilbrigðisþjónustan sinni skjólstæðingum sínum óháð efnahag, kyni, aldri o.s.frv. Velferðarsjónarmiðin að þessu leyti eru grundvöllur þess kerfis sem við höfum búið við og munu verða það áfram.