135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[18:34]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég á ekki von á öðru en að mál nefnda sem skila af sér verði rædd á þinginu. Eins og hv. þingmaður veit út af mikilvægi málanna þá voru settar nefndir af stað til að fara yfir málið — nema hvað? — undir forustu Guðjóns Magnússonar og Vilhjálms Egilssonar. Það er alveg rétt að aðbúnaður starfsmanna er stórt mál og við þurfum að skoða ýmislegt í því samhengi. (Gripið fram í.)

Varðandi stefnu ríkisstjórnarinnar um einkavæðingu þá veit ég ekki, virðulegi forseti, af hverju hv. þingmaður klifar á þessu og tengir það við að þá minnki aðgengi eða þjónustugjöldin hækki og slíka hluti. Það er bara ekkert sem bendir til þess. Á undanförnum árum undir forustu ráðherra Framsóknarflokksins var farið út í alls kyns einkarekstur. Er hv. þingmaður að halda því fram að heilsugæslustöðin í Salahverfi minnki eitthvað aðgengi þess fólks sem þar býr? Er hv. þingmaður að halda því fram? (Gripið fram í: Nei.) Er hv. þingmaður að halda því fram að Læknavaktin takmarki eitthvað aðgengið? Er hv. þingmaður að halda því fram? Er hv. þingmaður að halda því fram að þær öldrunarstofnanir, einkareknar öldrunarstofnanir sem eru 80% af öldrunarstofnunum, takmarki aðgengið? Er hv. þingmaður að halda því fram? Varðandi öll þau mál sem hv. þingmaður nefndi sem verkefni þá skiptir engu máli hvort um er að ræða ríkisrekstur, sveitarfélagarekstur eða einkarekstur. Menn geta lent í öllu þessu við slík rekstrarform. Því miður hafa menn nú ekki náð hinu fullkomna kerfi í ríkisrekstrinum. Þá væri þetta lítið vandamál. Þá þyrfti ekki mikið að ræða.