135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

lengd þingfundar.

[11:33]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil leyfa mér í fyrsta lagi að mótmæla orðum hæstv. forseta og í öðru lagi að skýra það hvers vegna ég var ekki stödd hér í upphafi þingfundar á mínútunni klukkan hálfellefu til að hlusta á tilkynningu — og ég undirstrika tilkynningu — hæstv. forseta um að gert væri ráð fyrir að dagskráin yrði tæmd.

Það er ákveðinn staður hér í þessu húsi þar sem bjallan þegar hringt er til þingfundar nær ekki til og ég áttaði mig ekki á því þegar ég var á leiðinni upp tröppurnar hér að þingfundur væri hafinn þannig að ég tel mig hafa löggilda afsökun fyrir því að hafa ekki verið stödd í þingsalnum klukkan hálfellefu (Gripið fram í.) til þess að gera athugasemd við orð hæstv. forseta.

Síðan vil ég segja þetta: Hæstv. forseti segir réttilega að okkur hafi ekki verið íþyngt með mörgum kvöldfundum í vetur. Það er fínt. Við erum öll sátt við það. Það gefur forseta ekki heimild til að níðast á þingstörfunum núna þegar mikið er í húfi. Forseti hefur tvo möguleika (Gripið fram í.) á því að hafa hér langan fund og bera það undir atkvæði þingsins (Forseti hringir.) eða þingflokksformenn. Þeir tveir einu möguleikar eru í stöðunni fyrir hæstv. forseta, engir (Forseti hringir.) aðrir. Hvorugur möguleikinn hefur verið notaður. (Forseti hringir.)