135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

leikskólar.

287. mál
[13:33]
Hlusta

Höskuldur Þórhallsson (F):

Frú forseti. Áður en ég fer efnislega yfir þær breytingar og helstu atriði frumvarpsins og nefndarálitsins, sem ég rita undir með fyrirvara, vil ég taka fram að starfið í nefndinni við málið hefur verið afar gott. Ég vil sérstaklega hrósa formanninum fyrir þá vinnu alla. Kallaður hefur verið til fjöldinn allur af sérfræðingum og þeir hafa komið og skýrt sjónarmið sín og nefndin hefur reynt að taka tillit til þeirra sjónarmiða eins og hægt er og þar hefur ekki hallað á minni hlutann að mínu mati á nokkurn hátt. Ég tek síðan undir hrós til ritara nefndarinnar, Unnar Kristínar Sveinbjörnsdóttur, en hún hefur unnið afskaplega gott starf.

Frumvarpinu er ætlað að skapa stutta og hnitmiðaða rammalöggjöf með samhljóm við löggjöf við önnur skólastig sem skapa skilyrði til að styrkja starf í leikskólum. Tekið er mið af breytingum á fjölskylduhögum, auknum fjölda íbúa sem eiga annað móðurmál en íslensku og menningarlegum fjölbreytileika. Samhliða voru lögð fram á Alþingi frumvörp til laga um leik-, grunn- og framhaldsskóla auk frumvarps til laga um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla.

Við gerð þessara frumvarpa var leitast við að horfa til þess að auka samfellu, samræmi og svigrúm jafnt innan og milli skólastiganna til að mæta breytilegum þörfum skólabarna sem ég tel að hafi tekist, sérstaklega varðandi leikskólana og grunnskólana.

Ég harma þó og það er nú kannski mál sem verður tekið fyrir seinna í kvöld að því miður náðist ekki sama samstaða um framhaldsskólafrumvarpið. Hefur Framsóknarflokkurinn því óskað eftir tvöföldum ræðutíma um það mál. En mér fannst skorta mjög á að tekið væri tillit til þeirra mörgu athugasemda sem komu fram um að málið mætti kannski vinna eilítið betur.

Ísland er eitt fárra landa þar sem leikskólastigið hefur verið skilgreint sem sjálfstætt skólastig. Með breyttum þjóðfélags- og atvinnuháttum og fjölskylduhögum hafa leikskólar fengið aukið vægi sem uppeldis- og menntunarstofnun en nú sækja 96% þriggja til fjögurra ára barna leikskóla. Í frumvarpinu er leitast við að tryggja leikskólabörnum sem best náms-, uppeldis- og leikskilyrði sem taka mið af mismunandi þörfum barna og örvi alhliða þroska þeirra. Ég held að það hafi á vissan hátt tekist og fagna því og segi að það er mjög í anda stefnu Framsóknarflokksins í þeim málum.

Hér hefur verið eilítil umræða um gjaldtöku á leikskólastigi og ég ætla að byrja umræðuna um það. Ég er ansi hræddur um að sá tími sem mér er gefinn verði fljótur að líða. Það er markmið og stefna Framsóknarflokksins að leikskólar verði gjaldfrjálsir. Við settum þá stefnu í síðasta ríkisstjórnarsamstarfi að það yrði gert í skrefum. Byrjað yrði að færa skólaskylduna niður í fimm ára aldurinn en stefnan og markmiðið er að á endanum verði þetta allt saman gjaldfrjálst.

Ég held að í ljósi stöðu sérstaklega ungs fólks í dag og barnafjölskyldna, sem nú þurfa að glíma við hærri vexti af t.d. húsnæðislánum sínum, væri hægt að koma verulega á móts við þær vegna þess að sá kostnaður mun að sjálfsögðu reynast þeim þyngri. Ég held því að nú sé tækifæri til þess að stíga það skref.

Í meðförum nefndarinnar var gerð sú breyting að sveitarfélögin kæmu að og heimilt væri að setja inn í samninga við einkarekna háskóla ákvæði um hvernig gjaldtökunni yrði háttað. Ég tel að það sé mikið framfaraskref frá því sem ákvæðið hljóðaði upp á en vil þó taka undir breytingartillögur hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur sem miða að því að gera leikskólann gjaldfrjálsan. Ég held samt að það verði að gæta vel að því að fjármagn fylgi frá ríkinu svo þessi kostnaður lendi ekki á sveitarfélögunum. Það er ýmis kostnaður sem mun lenda á sveitarfélögum verði þessi frumvörp öll samþykkt, sem ég veit að verður, og þau hafa oft þurft að glíma við fjárhagsvanda. Því má þá koma til móts við þann vanda með t.d. hækkun á framlögum ríkisins í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga.

Ég ætla að renna yfir einstaka kafla frumvarpsins og hvaða breytingar hafa verið gerðar við einstaka greinar frumvarpsins í meðförum nefndarinnar. Ég hef þegar gert grein fyrir fyrirvara okkar framsóknarmanna, en það eru kannski örlitlir aðrir fyrirvarar sem ég mun nú gera grein fyrir.

Í I. kafla frumvarpsins er fjallað um gildissvið og markmið frumvarpsins. Þar er verið að undirstrika þátt kennslu og náms í leikskólastarfi. Þar er gerð sú breyting að umönnun komi þar inn. Ég tel að það sé mjög jákvætt vegna þess að eins og menn vita er stór hluti af þeim þætti leikskólabarna ekki bara kennsla heldur líka umönnun. Reykjavíkurborg benti á þetta og að þetta ætti sérstaklega við um yngri börnin. Ég tel því að þetta sé skref í rétta átt.

Í 2. mgr. 1. gr. er fjallað um forsjá barns. Þar kemur fram sú skilgreining að þeir sem fara með forsjá barns í skilningi barnalaga teljist foreldrar þess. Nefndin taldi að það væri mikilvægt að staða foreldra, sem fara með sameiginlega forsjá en búa ekki saman, verði gerð skýr þegar kemur að málefnum barna þeirra í leikskólum, til að mynda þegar kemur að framkvæmd sérfræðiþjónustu, samanber 22. gr. frumvarpsins, og hvernig skuli staðið að samþykki slíkrar þjónustu, þ.e. hvort samþykki beggja foreldra sé nauðsynlegt. Ég held að mjög mikilvægt sé að skerpa einmitt á þessu þannig að réttur foreldra sé skýr og barnið þurfi ekki að gjalda þess á einhvern hátt að okkur hafi ekki lánast að setja nógu skýrar reglur um þetta atriði.

Í 2. gr. frumvarpsins er fjallað um markmið. Mikil umræða var um að kristið siðgæði skyldi vera tekið út úr markmiðsgrein frumvarpsins og hefur umræðan kannski fyrst og fremst snúist um að það var líka tekið úr markmiðsgrein frumvarpsins til laga um grunnskóla. Athugasemdirnar sem bárust voru því frekar ítarlegri hvað varðar grunnskólana og ég mun kannski koma betur að því þá.

Mig langar að lesa aðeins úr þeim umsögnum sem bárust. Ein kom frá Húnaþingi vestra, foreldrafélaginu þar. Þar segir að þeir þættir sem voru tilgreindir í frumvarpinu falli allir undir kristilegt siðgæði. Orðalagið kristilegt siðgæði hafi hins vegar meiri kjölfestu sem viðmið, standi á rótfastari grunni og gefi tóninn fyrir nánari útskýringu á þeim hugtökum sem á eftir fara. Manngildið gæti til að mynda verið afar breytilegt eftir samfélögum og trúararfur hefur þar mikið um að segja. Orðalagið kristileg siðgæði gerir ekki kröfu um trúarjátningu eða trúarafstöðu en útskýri augljóslega rætur gildismatsins. Undir þessi orð vil ég taka og mér finnst þetta ágætlega orðað. En um þetta snýst málið kannski fyrst og fremst.

Ég vil lesa örstutt úr umsögn Prestafélags Íslands. Þar kemur fram, með leyfi forseta:

„Við megum ekki afneita uppruna okkar. Til forna sögðu heimspekingarnir: Maður þekktu sjálfan þig! Ef íslensk þjóð veit ekki af hvaða rótum hún er sprottin og þekkir ekki þann arf sem hún fékk í vöggugjöf; hvernig á hún þá að vita hver hún er? Sú sjálfsvitund er forsenda þess að vera heilbrigður einstaklingur/heilbrigð þjóð. Um þessar mundir er afstæðishyggja mjög ráðandi, það viðhorf að allar skoðanir séu jafnréttháar og rétt og rangt sé ekki til nema sem smekksatriði.“

Mér finnst þetta vel orðað og vildi koma þessu á framfæri en ætla að leyfa mér að fara betur yfir þetta eins og ég sagði áðan í umræðunni um grunnskólann.

Ég fagna því að það skuli komið inn að starfshættir leikskóla skuli mótast af umburðarlyndi og kærleika, jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi, virðingu fyrir manngildi og kristinni arfleifð íslenskrar menningar sem er mjög í anda umsagnar biskups Íslands. Hæstv. menntamálaráðherra hafði vísað í dóm Folegerø og fleiri gegn Noregi en sú tilvísun stafaði af misskilningi. Sá dómur fjallaði ekki á nokkurn hátt um það að við Íslendingar þyrftum að falla frá þessari markmiðsgrein.

Fleiri breytingar í þessari lagagrein eru til bóta. Við síðari málsgrein 2. gr. bætist nýr liður, b-liður, þar sem segir að markmið kennslu og uppeldis í leikskóla skuli vera að veita skipulega málörvun og stuðla að eðlilegri færni í íslensku.

Þetta er breytingartillaga frá Íslenskri málnefnd og ég held að hún sé mjög til bóta. Hér er líka breytingartillaga frá Greiningar- og ráðgjafamiðstöð ríkisins, sem er sú að í töluliðnum þar á eftir segi að einnig verði að hlúa að börnum andlega og vitsmunalega — nýtt orð er komið inn, orðið „vitsmunalega“ — og í samræmi við þarfir hvers og eins svo að börnin fái notið bernsku sinnar. Þetta finnst mér mjög til bóta.

Í breytingartillögum hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur kom fram að hún vildi fá nýjan kafla, sem ég get mjög vel tekið undir, og að sá kafli ætti að fjalla um réttindi nemenda í leikskólum sem yrði þá sambærilegur við IV. kafla grunnskólafrumvarpsins. Þetta snýst um það að nemendur hafi sjálfstæðan vilja jafnvel þó að þau séu ung og séu í leikskóla og er þá í samræmi við barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Það er þá tekið mið af skoðunum þeirra og vilja. Ég held að það hefði verið til bóta ef þetta hefði fengið að fljóta með í frumvarpinu.

Í 5. gr. frumvarpsins er mælt fyrir um rekstrarlega stjórnun leikskólastjóra og ábyrgð hans á daglegu starfi leikskólans, að það samrýmist gildandi lögum, reglugerðum, aðalnámskrá, skólanámskrá og öðrum fyrirmælum sem kunna að vera í gildi. Hins vegar var tekið út ákvæði í gildandi lögum um skyldu hans til að halda reglubundna fundi með starfsfólki leikskólans. Í nefndarálitinu segir að það sé álit nefndarinnar að rétt sé að stuðla að sambærilegri skyldu og ábyrgð skólastjóra mismunandi skólastiga. Nefndin mælir því fyrir breytingum á 5. gr. frumvarpsins í þá átt að það sé á ábyrgð leikskólastjóra að stuðla að samstarfi milli foreldra, starfsfólks leikskóla og annars fagfólks og að hann skuli boða til kennara- og starfsmannafunda svo oft sem þurfa þykir. Ég er ekki sannfærður um að þetta sé til bóta. Við tókum þessa umræðu kannski meira um grunnskólafrumvarpið og þá komu þær skoðanir upp að skólastjórum og leikskólastjórum væri gefið of mikið vald, ef eitthvað bjátaði á í skólastarfinu gæti skólastjórinn einfaldlega komið í veg fyrir að haldnir yrðu kennarafundir sem gætu verið mjög mikilvægir, sérstaklega ef ágreiningur væri á milli skólastjóra og kennara. Því var þeim hugmyndum hreyft að tveir þriðju hlutar kennara gætu óskað eftir kennarafundi. Á það var ekki fallist sem ég tel á vissan hátt miður. Ég held að það hefði svo sem ekki breytt stjórnunarvaldi skólastjórans á nokkurn hátt en ég tel að það hefði verið til bóta.

Í 6. gr. frumvarpsins er fjallað um ráðningu starfsfólks leikskóla, en staða starfsfólks leikskóla og hlutverk þess var eitt af meginumræðuefnum innan nefndarinnar. Sú umræða hélst í hendur við umræðuna um 9. og 20. gr. frumvarps til laga um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Í 9. gr. var kveðið á um að tveir þriðju hlutar stöðugilda við kennslu, umönnun og uppeldi barna í hverjum leikskóla skuli teljast til stöðugilda leikskólakennara að lágmarki.

Í 20. gr. þess frumvarps er svo gert ráð fyrir undanþágu frá ákvæðinu þar sem heimild er veitt til að ráða til bráðbirgða, að hámarki í eitt ár, einstakling sem ekki hefur menntun leikskólakennara, fáist ekki leikskólakennari í stöðugildið þrátt fyrir ítrekaðar auglýsingar. Um er að ræða breytingu frá gildandi lögum þar sem gert er ráð fyrir að öll stöðugildi skuli skipuð leikskólakennurum. sbr. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 78/1994. Markmiðin sem boðuð eru í því frumvarpi, menntunarfrumvarpinu, eru kannski ekki alveg í takt við íslenskan veruleika og þá kannski sérstaklega hér á höfuðborgarsvæðinu, mönnunarvandi er til að mynda ekki til staðar á Akureyri. Staðan í leikskólamálum er afar góð þar og ég held að ég muni það rétt að yfir 80% allra starfsmanna leikskóla eru með leikskólakennaramenntun. Þar sem ég á tvær stelpur á leikskólaaldri finnur maður að bæði skiptir það máli að hafa menntaða leikskólakennara sem og að ekki sé mikið rót á starfsmönnum, þeim sem eru ófaglærðir. Ég tel að hér sé stigið jákvætt skref. Nefndin fór vel yfir þetta og ég held að málið hafi á vissan hátt verið leyst með því að í umræddan hámarkstíma sé hægt að ráða einstakling sem ekki hefur tilskilda menntun ef menntaður leikskólakennari sækir ekki um.

Í 3. mgr. 6. gr. er fjallað um það nýmæli að óheimilt sé að ráða til starfa einstakling sem hlotið hefur refsidóm fyrir brot gegn XII. kafla almennra hegningarlaga, nr. 1940, þar sem fjallað er um kynferðisbrot. Mjög ítarleg og vönduð umfjöllun er um þetta atriði í nefndarálitinu og ég get tekið undir allt sem þar segir. Ég held að þetta sé heppileg leið. Hagsmunir barna sem dveljast á leikskóla oft og tíðum allan daginn eru í fyrsta sæti. Það er óhjákvæmilegt og réttmætt að komið sé í veg fyrir að einstaklingar sem brotið hafa gegn kaflanum sinni störfum sem feli í sér umgengni, umsjón og ábyrgð á börnunum en ég tel ekki rétt að fara í eins og hér er rakið …

Frú forseti. Ég heyri að ég er búinn með tímann. Ég mun koma aftur og ljúka máli mínu vegna þess að ég átti eftir að ræða um ýmislegt.