135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

grunnskólar.

285. mál
[18:04]
Hlusta

Frsm. menntmn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti menntamálanefndar um frumvarp til laga um grunnskóla. Ásamt þessu nefndaráliti hefur nefndin lagt fram þingskjal þar sem fram koma þær breytingartillögur sem nefndin leggur til að gerðar verði á frumvarpinu eins og það var lagt fram. Þetta eru breytingartillögur í 29 liðum og lengd nefndarálits upp á 13 blaðsíður skýrist kannski af því.

Grunnskólafrumvarpið er annað frumvarpið af fjórum sem hér er til umræðu í dag. Umræðu um leikskólana er lokið, nú eru það grunnskólarnir, síðan eru það framhaldsskólarnir og að lokum ræðum við um menntun kennara og starfsfólks í þessum skólum.

Til að byrja með er kannski rétt að geta þess að það var nokkuð mikill samhljómur meðal þingmanna allra flokka sem sæti eiga í menntamálanefnd um afgreiðslu þessa máls enda má sjá að fulltrúar allra flokkanna skrifa undir nefndarálitið þó að auðvitað sé áherslumunur milli manna um ákveðin atriði en þegar á heildina er litið virðist mér verulega góð sátt hafa náðst um meginatriði þessa frumvarps. Ég vil því eins og áður þakka nefndarmönnum í menntamálanefnd kærlega fyrir samstarfið við vinnslu þessa máls. Hún tók langan tíma og var ákaflega umfangsmikil eins og sjá má í upphafi nefndarálitsins en þar kemur fram að 52 gestir komu á fundi nefndarinnar, fjölmargar umsagnir bárust og ég hef ekki tölu á öllum þeim fundum sem haldnir voru vegna þessa frumvarps.

Auðvitað hef ég ekki tök á því að gera nákvæmlega grein fyrir öllu því sem stendur í nefndarálitinu. Sú stefna var mörkuð að reyna að láta það endurspegla þau meginsjónarmið sem rædd voru í nefndinni í tengslum við vinnslu þessa máls og ég held að það hafi tekist býsna vel. Sum þau efnisatriði sem hér hafa verið rædd í umræðum um frumvarp til laga um leikskóla eiga við um grunnskólafrumvarpið vegna þess að það eru í rauninni sömu sjónarmið sem þar búa að baki og mun ég í yfirferð minni vísa til þeirra síðar í ræðu minni.

Ég ætla að byrja á því að fjalla um hlutverk grunnskólans og 2. gr. frumvarpsins en í þeirri grein er að finna markmið frumvarpsins. Þar segir að í samvinnu við heimilin sé það hlutverk grunnskóla að stuðla að alhliða þroska allra nemenda og búa þá undir þátttöku í lýðræðissamfélagi. Í 2. málslið 1. mgr. er svo tilgreint að starfshættir grunnskólans skuli mótast af umburðarlyndi, jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi og virðingu fyrir manngildi. Mikil umræða átti sér stað í þjóðfélaginu sem og innan nefndarinnar um þetta ákvæði frumvarpsins. Sneri sú umræða fyrst og fremst að þeirri breytingu að hugtakið „kristilegt siðgæði“ var fellt brott úr markmiðsgrein gildandi laga, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 66/1995. Í athugasemdum við 2. gr. frumvarpsins kemur fram að fyrrgreint orðalag er fellt brott í ljósi breytinga á samfélaginu á undanförnum árum og í samræmi við ábendingar ýmissa aðila. Því sjónarmiði hefur þó verið hreyft fyrir nefndinni að meiri hluti innflytjenda til landsins er kristinnar trúar. Í athugasemdum við greinina segir jafnframt að hugtökin umhyggja, sáttfýsi og virðing fyrir manngildi séu kjarninn í túlkun á kristilegu siðgæði og komi í stað þess orðalags. Í þeirri umræðu sem átti sér stað í þjóðfélaginu var á tíðum vísað í dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Folgerø og annarra gegn Noregi. Í því máli voru málavextir þeir að í norsku námskránni fyrir grunnskóla voru árið 1997 sameinaðar tvær námsgreinar, kristinfræði og lífsskoðanir, í kristindómsfræðslu með innsýn í trúarbrögð og lífsskoðanir. Samkvæmt norskum lögum var heimilt að fá undanþágu frá þessari grein hvað varðar þá þætti kennslunnar sem ekki samrýmdust trúarbrögðum og lífsskoðunum viðkomandi og gætu talist iðkun annarrar trúar. Kærendur í máli þessu voru meðlimir í félagi húmanista í Noregi og óskuðu þeir eftir því að börn sín fengju undanþágu frá allri kennslu í þessari nýju kennslugrein. Þeirri beiðni var hafnað. Töldu foreldrarnir að á sér væri brotið og vísuðu í 9. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem fjallar um hugsana-, samvisku- og trúfrelsi, 2. gr. samningsviðauka nr. 1 um rétt til menntunar, 8. gr. um friðhelgi einkalífs og fjölskyldu og 14. gr. samningsins um bann við mismunun. Byggðu þeir mál sitt á því að þeim væri meinað að tryggja börnum sínum menntun í samræmi við trúarskoðanir þeirra og samvisku. Enn fremur væri lögð aukin fyrirhöfn á þá foreldra sem aðhylltust aðra trú en kristni enda hefðu kristnir foreldrar í raun ekki ástæðu til að sækja um sambærilega undanþágu. Dómstóllinn bendir á í dómi sínum að þyngri áhersla er lögð á kristinfræði en önnur trúarbrögð og að ákveðið ójafnvægi ríki þar á milli. Hann telur þó að slíkt sé eðlilegt þegar tillit er tekið til stöðu kristni í Noregi, en hin evangelíska-lúterska trú er ríkistrú Noregs sem um 85% landsmanna aðhyllast. Kemur ekki fram í dómnum að slíkt brjóti í bága við mannréttindasáttmála Evrópu. Álítur nefndin því að það fari ekki í bága við ákvæði sáttmálans að ríki meti og ákveði innihald námskrár sinnar með tilliti til kristinnar trúar. Dómstóllinn taldi aftur á móti að jafna yrði þetta ójafnvægi milli stöðu kristninnar og annarra trúarbragða og synjun um algera undanþágu frá kennslu í hinni nýju námsgrein bryti í bága við 2. gr. 1. viðauka samningsins. Telur nefndin aftur á móti rétt að benda á að dómstóllinn vísaði frá kæru foreldranna um takmarkaða undanþágu frá kennslugreininni á grundvelli þess að kæruleiðir í Noregi voru ekki tæmdar áður en málið kom til dómstólsins. Kvað dómstóllinn því ekki upp úr um hvort sú leið sem farin var í Noregi hvað varðar heimild til takmarkaðrar undanþágu bryti í bága við sáttmálann. Aftur á móti fjallar dómstóllinn mikið um ferli þess að fá slíka undanþágu og telur það bæði vera flókið og óskilvirkt sem og að undanþáguheimildirnar séu þröngar en einungis var hægt að fá undanþágu frá þeim þáttum sem foreldrar töldu vera þátttöku í trúariðkun eða trúarlegum athöfnum. Það sem eftir stendur að mati nefndarinnar er að dómstóllinn kvað ekki upp úr um að Norðmenn þyrftu að breyta markmiðsgrein sinni þar sem vísað var til þess að stuðla skyldi að „kristilegu siðgæði og uppeldi“. Með hliðsjón af því sem ég hef hér sagt og þess hversu mjög íslensk saga, menning og þau gildi sem íslenskt þjóðfélag byggist á eru samofin hinni kristnu arfleifð íslenskrar menningar, telur nefndin rétt að tekið sé mið af þeirri staðreynd í markmiðsgrein frumvarpsins og leggur til breytingar á henni sem fram koma í 1. tölulið breytingartillagna sem lagðar hafa verið fram á þskj. 1008.

Í þessu sambandi og úr því að ég er hér í ræðustólnum tók ég eftir því að fyrir þinginu liggur breytingartillaga frá hv. þingmönnum Höskuldi Þórhallssyni og Jóni Magnússyni vegna atriðis sem tengist þessu, en það er breytingartillaga við 2. mgr. 25. gr. Þar er lagt til, ef ég man rétt, að 2. mgr. verði breytt með þeim hætti að í greininni skuli kveða á um það að í aðalnámskrá skuli setja ákvæði um kristinfræði sem námsgrein í grunnskólum. Ég vona að það sé réttur skilningur. (Gripið fram í.) Hér kom hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir mér til bjargar og rétti mér hér breytingartillöguna. Hún gengur út á að á eftir orðinu „samfélagsgreinum“ í 2. mgr. 25. gr. komi: kristinfræði.

Ég ætlaði aðeins að gera athugasemd við þessa breytingartillögu vegna þess að hún tengist umræðunni um kristnina, kristið siðgæði, kristna arfleifð o.s.frv. Ég skil vel þau rök sem liggja að baki henni. Mín skoðun er hins vegar sú að þrátt fyrir að ég hafi samúð með sjónarmiðinu þá tel ég að með því að breyta ákvæði 2. gr. með þeim hætti sem ég hef hér gert grein fyrir þá gangi þingið nokkurn veginn eins langt og mögulegt er að þessu leyti.

Ég tel að með því að tiltaka kristinfræði sérstaklega en ekki trúarbragðafræði eins og lagt er til í því breytingartillöguskjali sem menntamálanefnd leggur fram, þ.e. í 18. lið, sé þingið hugsanlega komið á grátt svæði, m.a. gagnvart þeim dómi sem ég fór yfir hér. (Gripið fram í: Kristni og …) Já, en það breytir ekki niðurstöðu minni. Það er skoðun mín, þrátt fyrir þann skilning sem ég hef á því sjónarmiði sem liggur að baki breytingartillögu hv. þingmanna og dreift hefur verið á þskj. 1057, að slíkum námsgreinum væri betur fyrir komið í aðalnámskrá en í lögunum sjálfum. Ég vildi bara að þetta kæmi fram í umræðu um þetta atriði málsins sem hefur svo mjög verið til umfjöllunar í tengslum við menntamálin.

Á bls. 4 í nefndarálitinu er vikið að grunnskólastarfinu og stjórnskipan grunnskólanna, þ.e. II. kafla frumvarpsins. Ég ætla að leyfa mér að vísa til þess sem segir þar og það sama ætla ég að gera hvað varðar kaflann sem fjallar um mat og eftirlit með gæðum grunnskólastarfs en mig langar til að víkja að kaflanum um starfsfólk grunnskólans. Á bls. 6 í nefndarálitinu segir svo:

„Í 1. mgr. 7. gr. frumvarpsins er kveðið á um hlutverk skólastjóra. Í umsögn Kennarasambands Íslands er lögð mikil áhersla á aðkomu kennara að stjórnun og skipulagningu á innra starfi skólans og leggur sambandið ríka áherslu á að í lögunum þurfi að vera skilgreind ákvæði um kennarafundi. Tekur nefndin að miklu leyti undir þessar áherslur og leggur til breytingar á 1. mgr. 7. gr. frumvarpsins í þá veru. Áréttar nefndin að í breytingartillögunni er bæði kveðið á um að skólastjóri boði til kennarafunda sem og sérstakra starfsmannafunda svo oft sem hann telur þörf á.

Í 29. gr. frumvarpsins er fjallað um skólanámskrá og starfsáætlun. Er það álit nefndarinnar að hlutverk skólaráða við gerð starfsáætlunar sé ekki nægjanlega skýrt í greininni. Í 1. mgr. 8. gr. frumvarpsins segir að skólaráð fjalli m.a. um árlega starfsáætlun. Nefndin áréttar mikilvægi starfsáætlunar og að samráðs við gerð hennar sé gætt. Nefndin leggur til breytingu á 29. gr. sem kveður á um skýra skyldu og ábyrgð skólastjóra til að gera árlega skólanámskrá og starfsáætlun, og að samráðs við vinnslu þeirra sé gætt. Telur nefndin að með þessari breytingu sé aðkoma kennara að skipulagningu innra starfs skólans tryggð en kennarar eiga tvo fulltrúa í skólaráði samkvæmt 1. mgr. 8. gr. frumvarpsins.“

Ég vil líka benda á að nefndin leggur til breytingar á heiti III. kafla frumvarpsins en í frumvarpi um grunnskóla, líkt og um leikskóla, er fjallað um starfslið grunnskóla. Það komu fjölmargar athugasemdir við orðið „starfslið“ og við vorum öll sammála um það í menntamálanefnd að breyta því orði í „starfsfólk“.

Í frumvarpi til laga um grunnskóla er eins og í frumvarpi til laga um leikskóla að finna nýmæli þar sem kveðið er á um að óheimilt sé að ráða til starfa við grunnskóla einstakling sem hlotið hefur refsidóm fyrir brot gegn XXII. kafla almennra hegningarlaga, en í þeim kafla er fjallað um kynferðisbrot. Er þar jafnframt kveðið á um að við ráðningu skuli liggja fyrir sakavottorð viðkomandi einstaklings eða heimild til handa skólastjóra til að afla upplýsinga úr sakaskrá. Ég hef áður farið yfir meginsjónarmiðin sem liggja þarna að baki, þau eru hin sömu og varða starfsfólk sem starfar á leikskólunum, enda teljum í nefndinni að sömu sjónarmið eigi við þegar um er að ræða grunnskólanemendur og nemendur í leikskóla.

Ég vil síðan benda á að í 7. gr. frumvarps til laga um leikskóla er kveðið á um þagnarskyldu starfsfólks leikskóla. Aftur á móti er ekki að finna sambærilegt ákvæði í frumvarpi til laga um grunnskóla. Telur nefndin að full ástæða sé til að hafa slíkt ákvæði í lögunum og leggur til að því verði bætt við. Enn fremur er mikilvægt að ákvæði um þagnarskyldu komi inn í lagatextann svo að þagnarskylda nái yfir starfsfólk sjálfstætt rekinna grunnskóla sem ekki falla undir 2. mgr. 57. gr. sveitarstjórnarlaga þar sem mælt er fyrir um þagnarskyldu starfsmanna sveitarfélaga. Nefndin áréttar að þeir skólar sem hljóta viðurkenningu á grundvelli 43. gr. frumvarpsins lúti ákvæðum þess, samanber einnig 1. gr. frumvarpsins. Er það einnig álit nefndarinnar að full ástæða sé til að ítreka þá skyldu barnaverndarlaga að tilkynna skuli til barnaverndarnefnda þegar grunur vaknar um að barn búi við vanrækslu eða ofbeldi. Með því að setja inn ákvæði um þagnarskyldu og árétta enn fremur tilkynningarskyldu samkvæmt barnaverndarlögum er tryggt að starfsfólk sjálfstætt starfandi grunnskóla skuli gæta þagmælsku um það sem það verður áskynja í starfi sínu, að teknu tilliti til upplýsingaskyldu barnaverndarlaga.

Í 12. gr. frumvarpsins er svo kveðið á um rétt kennara og skólastjóra grunnskóla til símenntunar. Því sjónarmiði var hreyft fyrir nefndinni að símenntunarákvæði eigi almennt ekki heima í lagatexta heldur sé þar um að ræða réttindi sem tilheyra eigi kjarasamningum. Hins vegar komu jafnframt umsagnir í þá átt að tryggja þyrfti fleiri fagaðilum en skólastjórum og kennurum rétt til símenntunar. Hér takast því á ákveðin grundvallarsjónarmið um hvort ákvæði um símenntun einstakra hópa eigi heima í lögum eða ekki. Er það sjónarmið nefndarmanna að réttur til símenntunar starfsmanna sé almennt kjarasamningsatriði. Hvergi er í sérlögum fjallað um símenntunarrétt einstakra fagstétta sem viðkomandi lög ná yfir og má í þessum efnum til að mynda nefna félagsráðgjafa, sálfræðinga, heilbrigðisfulltrúa, bókasafnsfræðinga o.s.frv. Ástæða þess að kveðið er á um slík réttindi kennara er í raun arfleifð frá því að grunnskólinn var færður frá ríki yfir til sveitarfélaga. Var um að ræða framlag ríkisins til þess að styðja við menntun kennara líkt og áður var. Leggur nefndin því til að 3. mgr. 12. gr. frumvarpsins verði færð inn í bráðabirgðaákvæði frumvarpsins. Áréttar nefndin aftur á móti að með því að setja ákvæðið í ákvæði til bráðabirgða er ekki verið að gera tillögu um breytingu á núverandi skipulagi heldur eingöngu að skapa möguleika á að aðilar geti samið um breytt fyrirkomulag sín á milli kjósi þeir svo.

Frú forseti. Á bls. 9 er kafli um sérfræðiþjónustu. Ég fór yfir sambærilegan kafla í umfjöllun minni um nefndarálit menntamálanefndar um frumvarp til laga um leikskóla og ætla ekki að endurtaka þau sjónarmið sem þar komu fram í umfjöllun um þetta nefndarálit vegna þess að þau sjónarmið eru hin sömu. Ég vísa til þeirrar umfjöllunar sem fram kemur í nefndarálitinu og þess sem ég hef áður sagt um þessi mál en ég vil undirstrika vegna þeirrar umræðu sem fram fór um frumvarp um leikskóla að í ákvæðum þess frumvarps sem kveða á um sérfræðiþjónustu felst gríðarlega mikil réttarbót fyrir þau börn, þá nemendur sem þurfa á sérfræðiþjónustu að halda. Ég leyfi mér að fullyrða að eftir að frumvarpið var lagt fram og menntamálanefnd hefur sett sitt mark á þau ákvæði tel ég að nefndin gangi eins lagt og mögulegt er í að tryggja þeim nemendum sérfræðiþjónustu sem á þurfa að halda, sama hvort um er að ræða líkamlega fötluð börn, andlega fötluð börn eða börn með ýmis vandamál, með þeim reglum sem fram koma í kaflanum og þeim áherslum sem nefndin leggur til í því sambandi og hér sé um gríðarlega réttarbót að ræða og stórt skref fram á við í þjónustu við þessa hópa.

Í lok nefndarálitsins er fjallað um nemendur og foreldra og er óhætt að segja að miklar umræður fóru fram í nefndinni um nemendur grunnskóla eða eins og segir í nefndarálitinu:

„Í IV. kafla frumvarpsins er fjallað um nemendur grunnskóla. Miklar umræður fóru fram innan nefndarinnar um 2. mgr. 17. gr. og þá nemendur sem rétt eiga á sérstökum stuðningi í námi í samræmi við metnar sérþarfir.“ — Þetta tengist því sem ég fjallaði um áðan. — „Umræðan snerist fyrst og fremst um hverjir skyldu vera tilgreindir í ákvæðinu. Er það álit nefndarinnar að upptalningar af þessu tagi séu sjaldan heppilegar í lagatexta og bjóði heim hættu á þeirri túlkun að um tæmandi upptalningu sé að ræða og því megi gagnálykta að þeir sem ekki eru tilgreindir í viðkomandi ákvæði eigi ekki undir það. Aftur á móti telur nefndin að í tilviki 2. mgr. 17. gr. eigi slík hætta ekki að vera fyrir hendi þar sem í ákvæðinu segir: „… og aðrir nemendur með heilsutengdar sérþarfir …“ Undirstrikar nefndin að hér sé ekki um tæmandi upptalningu að ræða og því geti einstaklingar sem til að mynda greinast með þroskaröskun átt rétt á sérstökum stuðningi í námi. Enn fremur bendir nefndin á að ekki er fjallað um rétt bráðgerra barna til sérstakrar aðstoðar. Er það álit nefndarinnar að ekki verði síður að taka tillit til þeirra barna enda geti þau börn jafnframt þurft á sérstakri aðstoð að halda.“

Mér finnst rétt að draga þetta atriði sérstaklega út úr kaflanum vegna þess að við fengum fulltrúa og aðstandendur þeirra barna sem eiga við þroskaröskun og ýmis önnur vandamál að stríða fyrir nefndina. Það kom fram í máli þeirra að þau höfðu áhyggjur af því að ákvæði laganna um þessi atriði næðu ekki til þeirra hópa sem hér hafa verið nefndir en nefndin telur að svo sé.

Ég vil líka nefna að í nefndarálitinu er vikið að nemendalýðræði í skólum og við stigum skref í menntamálanefnd til að tryggja að hagsmuna nemenda sé gætt og gerum það í samræmi við ákvæði barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Við leggjum líka áherslu á rétt nemenda til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri varðandi námsumhverfi, námstilhögun og fyrirkomulag skólastarfs umfram það sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Sú breyting styðst einnig við ákvæði barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Nefndin leggur líka sitt af mörkum til að tryggja enn fremur rétt nemenda til náms- og starfsráðgjafar. Við reynum auk þess að tryggja aukinn rétt nemenda og foreldra þeirra til að skoða metnar prófúrlausnir og svo mætti lengi telja.

Frú forseti. Í ræðu sem tekur innan við hálftíma er ekki hægt að tæpa á öllum atriðum sem hér koma fram. Ég vil þó í lokin vekja athygli hv. þingmanna á kafla um heimakennslu, þ.e. undanþáguákvæði 46. gr. frumvarpsins á bls. 6 í nefndarálitinu. Þar er reynt að varpa ljósi á þá umræðu sem fór fram í nefndinni vegna hennar. Ég vísa til þeirrar umfjöllunar og geri ráð fyrir að einhverjir nefndarmenn fjalli um fyrirkomulag heimakennslu eins og henni er fyrir komið í frumvarpinu.

Að lokum vil ég nefna það sem ég sagði í upphafi að undir nefndarálitið rita þingmennirnir Einar Már Sigurðarson, Pétur H. Blöndal, Guðbjartur Hannesson, Höskuldur Þórhallsson með fyrirvara, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Katrín Júlíusdóttir og Kolbrún Halldórsdóttir með fyrirvara.

Hv. þm. Kjartan Eggertsson sem sat fundinn sem áheyrnarfulltrúi í stað hv. þm. Jóns Magnússonar lýsti sig samþykkan álitinu.

Eins og ég sagði í upphafi var mikill samhljómur meðal þingmanna allra flokka um meginlínurnar í þessu frumvarpi þrátt fyrir að auðvitað sé áherslumunur varðandi einstök atriði. Ég vil eins og áður þakka kollegum mínum í nefndinni fyrir gott samstarf um þetta mál og okkar góða starfsmanni, ritara nefndarinnar, fyrir framúrskarandi störf í okkar þágu. Ég hef ekki meira að segja um þetta mál og nefndarálit í bili, frú forseti.