135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

grunnskólar.

285. mál
[23:11]
Hlusta

Frsm. menntmn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hans ágætu hugvekju um þessi mál. En ég verð þó að gera athugasemd við það að með breytingartillögu menntamálanefndar um að starfshættir grunnskóla skuli mótast af kristinni arfleifð íslenskrar menningar sé verið að þynna út ákvæði núgildandi laga sem kveða á um kristilegt siðgæði. Ég er með umsögn sem mér barst út af þessu máli 18. janúar 2008. Þar segir, með leyfi forseta:

„Verði álitið nauðsynlegt að endurskoða orðalag markmiðsgreinarinnar þá leggur Biskupsstofa áherslu á að skýrt komi fram hverjar séu þær rætur sem grunngildi íslensks samfélags og skólastarfs eru sprottnar úr. Því er lagt til að markmiðsgreinin í 2. gr. orðist svo:

„Starfshættir grunnskóla byggjast á þjóðlegum, kristnum og siðrænum (húmanískum) arfi íslenskrar menningar og skulu mótast af mannúð, umburðarlyndi, jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi og virðingu fyrir manngildi.““

Undir þetta skrifar biskup Íslands, séra Karl (Forseti hringir.) Sigurbjörnsson, sem seint verður sakaður um að reka (Forseti hringir.) einhverja útþynningarstefnu í þessum málum, en ég tók undir með honum í tillöguflutningnum.