135. löggjafarþing — 106. fundur,  23. maí 2008.

grunnskólar.

285. mál
[01:34]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég vil gera að umtalsefni grunnskólafrumvarpið sem við höfum rætt í kvöld og byrja á að segja að ég fagna því að framhaldsskólafrumvarpið skuli tekið af dagskrá því að það ljóst að það hefði verið mjög óeðlilegt að ræða það um miðja nótt þar sem framsóknarmenn höfðu beðið um tvöfaldan ræðutíma í því máli og því er ágætt að forseti hafi nú tilkynnt að það sé tekið af dagskrá.

Í grunnskólafrumvarpinu kemur fram að markmiðið með því er að setja ný heildarlög um grunnskóla í ljósi reynslu af flutningi grunnskóla til sveitarfélaga árið 1996. Það er ágætt að rifja aðeins upp hvernig sá flutningur var af því að hann hafði mikil áhrif á grunnskólann. Það var Ólafur G. Einarsson, þáverandi menntamálaráðherra, sem stóð fyrir þeim flutningi. Þetta var geysimikið verk og að mínu mati tókst vel til með þann flutning. Það er mjög flókið að flytja stórmál á milli stjórnsýslustiga eins og þarna var gert þar sem grunnskólinn var fluttur frá ríki til sveitarfélaga. Það er gaman að rifja það upp að þegar menntamálanefnd vann að því máli á sínum tíma kom Ólafur G. Einarsson, þáverandi menntamálaráðherra, á fund menntamálanefndar. Það er svolítið merkilegt af því að við fáum nánast aldrei ráðherra á fundi nefnda í dag til að útskýra frumvörp. Hæstv. utanríkisráðherra Ingibjörg Sólrún Gísladóttir kemur stundum fyrir utanríkismálanefnd, eins og síðustu utanríkisráðherrar hafa gert, til að upplýsa nefndina. Á sínum tíma kom Ólafur G. Einarsson, þáverandi menntamálaráðherra, fyrir menntamálanefnd til að útskýra frumvarpið um flutning grunnskólans til sveitarfélaganna og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, þáverandi borgarstjóri, kom einnig fyrir nefndina til að útskýra það. Það er svolítið merkilegt að skoða þessi gögn núna aftur í tímann. Maður sæi þetta ekki fyrir sér í dag. Ég sé í gögnum málsins að hæstv. menntamálaráðherra Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir kom ekki fyrir nefndina núna til að fara yfir grunnskólamálið eða hin málin og ekki heldur borgarstjóri þó að þetta mál snerti sveitarfélögin að sjálfsögðu mjög mikið. Nóg um það en það er gaman að rifja þetta upp.

Í frumvarpinu eru nokkur efnisatriði sem gætu haft áhrif á útgjöld sveitarfélaga. Það eru atriði eins og sérþjónusta vegna túlkaþjónustu og sérfræðiþjónustu. Reyndar eru líka í frumvarpinu ákvæði sem geta leitt til lægri útgjalda sveitarfélaga, svo sem ákvæðið um meiri sveigjanleika með samrekstri leik-, grunn- og tónlistarskóla. Það er mat menntamálaráðuneytisins að í heildina hafi frumvarpið ekki í för með sér augljós aukin útgjöld fyrir sveitarfélögin en bent er þó á að ákveðin atriði íþyngi minni sveitarfélögum meira en þeim stærri. Það er opnað á það, virðulegi forseti, að rétt sé að endurskoða áhrif laganna að einhverjum tíma liðnum með það í huga að skoða hvaða útgjöld hafi þá hugsanlega fallið á sveitarfélögin. Þar er einkum verið að vísa til túlkunarþjónustu en erfitt sé að meta hvað hún muni kosta í framtíðinni af því að sá kostnaður sé að sjálfsögðu háður fjölgun nemenda af erlendum uppruna, en um þessar mundir eru um 10% fólks á vinnumarkaði á Íslandi af erlendum uppruna og talsverður hluti þess er með börn á framfæri. Stærsti hluti þessa fólks eru Pólverjar og búast má við talsverðri túlkun vegna þeirra sem er sjálfsagt að verða við en þetta getur haft áhrif á kostnað sveitarfélaganna.

Í nefndarálitinu — sem allir flokkar standa að, ef ég man rétt, reyndar eru tveir þingmenn með fyrirvara, það eru hv. þm. Höskuldur Þórhallsson frá Framsóknarflokki og hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir frá Vinstri grænum, en hv. þm. Höskuldur Þórhallsson hefur einmitt haldið ræðu um þetta mál — kemur fram sérstakt nýmæli sem mig langar að gera aðeins að umtalsefni. Það er í 3. mgr. 11. gr. þar sem kveðið er á um að óheimilt sé að ráða til starfa við grunnskóla einstakling sem hlotið hefur refsidóm við broti gegn XXII. kafla almennra hegningarlaga en í þeim kafla er fjallað um kynferðisbrot. Þar er jafnframt kveðið á um að við ráðningu skuli liggja fyrir sakavottorð viðkomandi einstaklings eða heimild til handa skólastjóra til að afla upplýsinga úr sakaskrá. Það kemur fram í nefndarálitinu að mikil umræða hafi farið fram innan nefndarinnar um þetta nýmæli og fjöldi umsagnaraðila gert athugasemdir við þessa grein frumvarpsins. Þær athugasemdir snerust mest um ósamræmi milli lagabálka, þ.e. á milli æskulýðslaga og barnaverndarlaga. Ég ætla ekki að fara djúpt ofan í það, það er nokkuð flókið mál en kemur ágætlega fram í nefndarálitinu. Varað var við slíku misræmi, bæði af Reykjavíkurborg og Sambandi ísl. sveitarfélaga. Í nefndarálitinu kemur fram, með leyfi forseta:

„Aftur á móti kom það fram í máli fulltrúa Barnaverndarstofu að þegar barnaverndarlögin voru samin hafi fyrstu skrefin verið tekin í þessa átt og því stigið varlega til jarðar. Mundu þeir, ef kæmi til endurskoðunar laganna, mælast til að gengið yrði lengra í þessum efnum en barnaverndarlögin gera nú.“

Nefndin færir rök fyrir því að gera ekki breytingar á þessu nýmæli þó að þessa ósamræmis gæti heldur gefur til kynna að ef barnaverndarlögunum yrði breytt síðar næðist samræmi. Það kemur líka fram að nefndin telji að setja verði hagsmuni barna í fyrsta sæti og í raun sé óhjákvæmilegt og réttmætt að koma í veg fyrir að einstaklingar sem brotið hafa gegn XXII. kafla almennra hegningarlaga sinni störfum sem fela í sér umgengni, umsjón og ábyrgð á börnum. Enn fremur telur nefndin að slíkt bann skuli ná til allra kynferðisbrota, óháð því hversu langur tími er liðinn frá því að brotin voru framin, enda hafi rannsóknir jafnframt sýnt að hluti kynferðisbrotamanna endurtaki verknað sinn. Og að mati nefndarinnar verði hagsmunir skólabarna ekki að fullu tryggðir nema ráðningarbannið sé ótakmarkað.

Hérna er um nýmæli að ræða sem ég tel af hinu góða að sé með í frumvarpinu og vænti þess að barnaverndarlögum verði breytt síðar til samræmis við þessi ákvæði og til samræmis við æskulýðslögin.

Á bls. 9 í nefndarálitinu kemur líka fram að það sé álit nefndarinnar að full ástæða sé til að ítreka þá skyldu barnaverndarlaga að tilkynna skuli til barnaverndarnefndar þegar grunur vaknar um að barn búi við vanrækslu eða ofbeldi. Með því að setja inn ákvæði um þagnarskyldu og árétta enn fremur tilkynningarskyldu samkvæmt barnaverndarlögum er tryggt að starfsfólk sjálfstætt starfandi grunnskóla skuli gæta þagmælsku um það sem það verður áskynja í starfi sínu, að teknu tilliti til upplýsingaskyldu barnaverndarlaga. Hér er það sem sagt áréttað af menntamálanefnd að það sé full ástæða til að ítreka þá skyldu barnaverndarlaga að tilkynna skuli til barnaverndarnefndar þegar grunur vaknar um að barn búi við vanrækslu eða ofbeldi. Í þessu sambandi langar mig að koma því á framfæri að ég tel að þetta sé afar mikilvægt atriði.

Sú er hér stendur er formaður velferðarnefndar Norðurlandaráðs sem er ein þriggja nefnda ráðsins. Í þeirri nefnd erum við einmitt að vinna með mál sem tengjast áföllum sem börn verða fyrir í æsku og það er meginþema nefndarinnar á þessu ári að undirbúa tillögu til Norðurlandaráðs um það hvernig bregðast eigi við afleiðingum slíkra áfalla.

Við fengum nýlega á fund nefndarinnar Anne Louise Kirkinen sem er læknir og sérfræðingur í þessum málum og hefur skrifað merkilega bók um áföll sem börn verða fyrir í æsku og afleiðingar þeirra áfalla á sjúkdóma. Þegar þessi börn fullorðnast fá þau ýmsa sjúkdóma og m.a. líkamlega sjúkdóma, þ.e. alls kyns kvilla sem maður telur við fyrstu sýn að stafi af allt öðrum ástæðum en andlegum áföllum. Jóhann Ágúst Sigurðsson, sem er prófessor í heimilislæknisfræði við Háskóla Íslands, skrifaði grein um þetta nýlega í Morgunblaðinu þar sem hann kemur á framfæri málþingi sem bandaríski læknirinn Vincent Felitti hélt erindi á en sá læknir hefur gert mjög víðtæka rannsókn í Bandaríkjunum, The Adverse Childhood Experience Study, við annan mann þar sem mörg þúsund einstaklingar voru spurðir út í áföll sem þeir höfðu orðið fyrir í æsku. Það kemur fram í grein Jóhanns Ágústs Sigurðssonar að kynferðislegt ofbeldi gegn börnum og unglingum og vanræksla, bæði ofbeldi og vanræksla og reyndar líka mikil sorg, slík áföll, leiði til líkamlegra sjúkdóma, að rannsóknir sýni sterkt samband ofbeldis í æsku og ýmissa líkamlegra sjúkdóma síðar á ævinni. Má þar nefna aukna tíðni kransæðasjúkdóma, astma og langvarandi lungnateppu, þrátt fyrir að tekið sé tillit til reykinga. Saga um ofbeldi í æsku geti þannig verið sterkari áhættuþáttur fyrir lungna-, hjarta- og áhættusjúkdóma en t.d. hátt kólesteról eða ýmsir hefðbundnir áhættuþættir þessara sjúkdóma. Skýringarnar eru m.a. þær að ofbeldi hefur áhrif á þroska heilans og hormónastarfsemi líkamans. Á unga aldri geti slíkar breytingar í hormónabúskap orðið varanlegar og m.a. stuðlað að aukinni offitu, beinþynningu, æðakölkunum og astma auk ýmissa hegðunar- og lífsstílsvandamála.

Virðulegur forseti. Ég er að færa rök fyrir því að það sé geysilega mikilvægt að ef kennarar eða þeir sem eru í kringum börn í skóla verða varir við vanrækslu eða ofbeldi sem börn verða hugsanlega fyrir á heimili sínu eða í sínu nærumhverfi, þá sé því komið á framfæri við barnaverndaryfirvöld þannig að hægt sé að grípa inn í. Með þessari nýju hugmyndafræði, sem er sem betur fer að ryðja sér til rúms núna á rannsóknasviðinu, að tengja áföll í æsku við líkamlega og andlega sjúkdóma sem einstaklingar fá síðar á lífsleiðinni, er að opnast nýr heimur í þessu og talað er um að jafnvel þurfi að endurmennta lækna, af því að í dag nálgast menn sjúkdóma allt of mikið út frá annarri hugmyndafræði en þeirri að kannski megi rekja stóran hluta sjúkdóma til áfalla sem viðkomandi einstaklingar hafa orðið fyrir í æsku. Ég fagna því að þessa er sérstaklega getið í nefndarálitinu með vísan í ákveðnar greinar í frumvarpinu.

Varðandi grunnskólann almennt þá er ljóst að þar má ýmislegt bæta. Það var auðvitað talsvert áfall þegar við fengum fyrr á árinu niðurstöðu úr svokallaðri PISA-könnun. Niðurstaðan úr þeirri könnun var verulegt áfall fyrir Íslendinga og sérstaklega fyrir þá sem bera mesta ábyrgð á menntamálunum. Ég veit að hæstv. menntamálaráðherra Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir var ósátt við þessa niðurstöðu en niðurstaðan er úr könnun sem gerð var árið 2006 um færni nemenda í 9. og 10. bekk í stærðfræði, náttúrufræði og lesskilningi. Þessi könnun var gerð í 57 löndum og reyndist Ísland miðlungsþjóð hvað árangur varðar en ekki þegar kom að fjárútlátum til málaflokksins. Við setjum talsvert mikið fjármagn í þennan málaflokk miðað við þessa rannsókn en fáum slaka niðurstöðu. OECD gagnrýndi yfirvöld í kjölfarið og bent var á að þessi árangur gæti ekki talist ásættanlegur miðað við það að Ísland eyddi meira fjármagni en nokkur önnur þjóð innan OECD á hvern nemanda. Við setjum talsvert fjármagn í skólakerfið, í grunnskólann, en árangur mælist lágur og okkur hefur hrakað. Við tókum þátt í sams konar könnun árið 2001 og niðurstöðurnar árið 2006 sýndu að nemendum hafði hrakað á tímabilinu í öllum greinum sem voru mældar. Þetta er mikið áhyggjuefni. Hæstv. menntamálaráðherra Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir hefur sagt í fjölmiðlum að hún bíði eftir svörum frá Sambandi ísl. sveitarfélaga, Kennarasambandinu, Heimili og skóla og fleiri aðilum áður en brugðist verður við. Við megum því eiga von á viðbrögðum við þessari niðurstöðu. Vonandi verða nýju grunnskólalögin til þess að árangurinn batni, ég ætla að leyfa mér að binda vonir við það.

Á sama tíma og maður sér, miðað við þessa PISA-könnun, að krökkunum okkar hefur farið aftur í tilteknum greinum vil ég líka draga fram jákvæða þróun hjá unglingunum okkar sem hefur komið fram í stórri rannsókn, svokallaðri HBSC-rannsókn, sem ég held að standi fyrir „Health Behaviour in School-aged Children“, en sú rannsókn er mjög marktæk á Íslandi af því að öll börn í tilteknum árgöngum voru spurð en erlendis er einungis hægt að spyrja ákveðið úrtak. Hér voru allir spurðir af því að við erum svo fá. Rannsóknin sýndi að forvarnir hafa virkað á okkar börn, ef ég get orðað það þannig. Það hefur dregið úr tíðni reykinga og dregið úr áfengisneyslu og fíkniefnaneysla, hassneysla, hefur staðið í dag. Það eru reyndar frekar lágar tölur, sem betur fer, sem mælast þar og því er kannski erfitt að túlka þær mikið en alla vega eru okkar börn á réttri leið þannig að ég leyfi mér að segja að forvarnastarf, m.a. í gegnum skólana, hefur skilað sér.

Fyrr á fundinum var líka smávegis rætt um lengingu skólaársins af því að börn eru lengur í skóla núna en áður og að það verði kannski til þess að þau vinni minna. En ég vil draga það fram varðandi grunnskólann og eins framhaldsskólann, þótt umræðan sé um grunnskólann, að vinnumunstrið er að breytast. Að mínu mati vinna talsvert fleiri með skóla í dag en á sínum tíma þegar sú er hér stendur var í skóla. Ég sé það bara hjá vinum barna minna og líka syni mínum, svo ég segi það hreint út, að þessir krakkar eru að vinna með skólanum, t.d. í búðum, þannig að þau kynnast vinnumarkaðinum kannski á svolítið annan hátt en gerðist fyrr á tíð.

Virðulegi forseti. Ég vil að lokum lýsa því yfir að ég tel að þetta frumvarp sé til bóta og bind vonir við að það verði til þess að skólastarfið eflist. Við eigum duglega kennara og metnaðarfulla og það er góður efniviður í börnunum okkar. PISA-könnunin hefur því valdið miklum vonbrigðum og vonandi mælumst við hærri í næstu könnun, af því að þetta er könnun sem tekið er mark á og hún á að vera marktæk og af því að við setjum talsvert fjármagn í skólana viljum við auðvitað fá góðan árangur. Enda þótt maður eigi kannski ekki að mæla lífshamingju endilega út frá einkunnum sem börn fá í skóla þá er það sterk vísbending um hvernig okkar kerfi virkar ef við mælumst lægri í einkunnum á milli tímabila í PISA-könnunum. Ég vona að þessi lög verði til þess að bæta ástandið. Svo er líka alveg ljóst að við þurfum að nýta fjármagnið sem við setjum til skólanna eins vel og við getum.