135. löggjafarþing — 107. fundur,  23. maí 2008.

Vestmannaeyjaferja.

[11:34]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Ég ætla að gera að umtalsefni málefni Vestmannaeyjaferju. Eins og kunnugt er voru nýlega opnuð tilboð í smíði og rekstur nýrrar Vestmannaeyjaferju til fimmtán ára og eftir þeim upplýsingum sem fram hafa komið bárust aðeins tvö tilboð, reyndar var annað strax dæmt ógilt og þar af leiðandi stóð eitt eftir sem hljóðaði upp á um 16,3 milljarða. Kostnaðaráætlun var upp á u.þ.b. 10 milljarða þannig að þetta tilboð fór um 60% fram úr áætlun.

Ég hef þess vegna áhuga á að heyra frá hæstv. samgönguráðherra hvar þetta mál stendur nákvæmlega og vek um leið athygli á opnu bréfi sem samgönguráðherra fékk í Morgunblaðinu í dag eftir Alfreð Tulinius skipatæknifræðing þar sem hann fjallar um þessa ferju og færir rök fyrir því að hér kunni að vera í uppsiglingu nokkuð alvarlegt mál. Hann segir t.d., með leyfi forseta, að við þarfagreiningu hafi ekki verið byggt á hlutlausu mati á samgönguþörfum Vestmannaeyinga, heldur sé hún þjökuð af annmörkum væntanlegs ferjulægis við Landeyjahöfn. Innsiglingin gefi komandi ferju takmarkanir í breidd og djúpristu skipsins.

Síðan lýsir hann tæknilegum þáttum, þarfagreiningunni og tæknilegum þáttum skipsins, málum og þess háttar, og segir svo, með leyfi forseta:

„Hér stíg ég um það bil frá borði, og hætti mér tæpast í lengra ferðalag með þessari ferju.“

Hann vísar hér í ágæt lögmál Newtons og Arkímedesar og segir svo að þau séu nú reyndar grafin eins og þeir félagar báðir tveir. Hann vísar líka í það að þetta mál sé farið að minna óneitanlega á aðferðafræði sem notuð var við Grímseyjarferju og segir svo í lokin:

„En það er víst að Grímsævintýrið kemur til með að vera smáslys í krónutölum talið miðað við það „skipbrot“ sem hér stefnir í.“

Ég vil þess vegna spyrja hæstv. samgönguráðherra: (Forseti hringir.) Hver er staða þessa máls nú og hvað hyggst ríkisstjórnin fyrir í málefnum Vestmannaeyjaferju?