135. löggjafarþing — 107. fundur,  23. maí 2008.

Vestmannaeyjaferja.

[11:39]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Aðeins varðandi það opna bréf sem mér barst í Morgunblaðinu í morgun, þá las ég það með morgunkaffinu eins og hv. þingmaður hefur gert og ég las það vel í gegn. Mér þótti það mjög merkilegt sem þar kom fram og er sett fram þótt ég dæmi ekkert um það á þessu stigi, en þetta var athyglisvert bréf og þau sjónarmið sem þar koma fram.

En hvað varðar tilboðið þá er verið að vinna með það eins og ég sagði áðan. Siglingastofnun hefur haft þá reglu og Vegagerðin auðvitað líka að þegar koma tilboð sem eru langt fyrir ofan kostnaðaráætlun þá er þeim oft hafnað. Eins og ég sagði þá er ekki hægt að segja neitt um það á þessu stigi vegna þess að málið er á vinnslustigi og menn gefa sér auðvitað þann tíma sem þarf til að vinna það og fara í gegnum það. Síðan kemur að því að öll gögn liggja á borðinu og þá taka menn ákvörðun. Það verður gert innan skamms.