135. löggjafarþing — 107. fundur,  23. maí 2008.

staðan á fasteignamarkaðnum og Íbúðalánasjóður.

[11:59]
Hlusta

félags- og tryggingamálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það þarf engum að koma á óvart að staðan á fasteignamarkaði er mjög erfið um þessar mundir. Við erum annars vegar að takast á við afleiðingar hagstjórnarmistaka síðustu ríkisstjórnar og óábyrgar aðgerðir bankanna á húsnæðislánamarkaði á undanförnum árum og hins vegar alþjóðlega fjármálakreppu. Það er hægara sagt en gert að vinna húsnæðismarkaðinn út úr slíkum aðstæðum og ef það á að takast verða allir aðilar að axla sína ábyrgð og enginn má hlaupast undan merkjum.

Það skiptir líka máli um hvernig við höldum nú á máli að viðurkenna mikilvægi Íbúðalánasjóðs fyrir íslenskt velferðarkerfi. Ef ekki væri fyrir Íbúðalánasjóð væru fasteignaviðskipti á Íslandi lömuð. Hér væri varla hægt að tala um fasteignamarkað ef ekki væri fyrir Íbúðalánasjóð. Þetta þurfa menn að viðurkenna. Í hnotskurn hefur þróunin frá 2004 verið með þeim hætti að Íbúðalánasjóður hefur lánað að meðaltali rúma 5 milljarða á mánuði frá þeim tíma sem nú hefur dregist saman um 1–1,5 milljarð kr. Bankarnir lánuðu að meðaltali tæpa 29 milljarða á mánuði á sl. þrem árum en í mars í ár lánuðu þeir 918 millj. kr. Útlán Íbúðalánasjóðs voru um 15 milljarðar fyrstu fjóra mánuði þessa árs en veðlán banka og sparisjóða 4 milljarðar á sama tíma. Aukinna vanskila er enn sem komið er ekki farið að gæta mikið hjá helstu lánastofnunum en því miður liggur slík þróun tvímælalaust í loftinu. Íbúðalánasjóður býr yfir ýmsum úrræðum fyrir lántakendur í greiðsluerfiðleikum og bankarnir þurfa ekki síður en Íbúðalánasjóður að koma til móts við þá lántakendur sem eiga í erfiðleikum með að standa í skilum vegna vaxandi greiðslubyrði lána. Nú reynir á hvort bönkunum sé í raun treystandi til að standa vaktina á þessum mikilvæga markaði og hvort þeir komi við þessar aðstæður til móts við viðskiptavini sína sem eru í verulegum erfiðleikum og vanskilum m.a. með nauðsynlegum skuldbreytingum. Það sem skiptir máli og aðgerðir í húsnæðismálum hljóta að taka mið af er að í þessu mikla umróti hefur Íbúðalánasjóður sannað gildi sitt sem lífæð fasteignamarkaðarins. Það er ekki alkul á markaðnum, hann er ekki helfrosinn, þökk sé Íbúðalánasjóði. Það er vegna þess sem ég vil standa vörð um Íbúðalánasjóð. Þess vegna verður það aldrei undir minni stjórn sem húsnæðismálaráðherra að sjóðurinn verði einkavæddur eða starfsemi hans einungis bundin við félagslegar aðgerðir í húsnæðismálum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Sjóðurinn á að þjóna öllu landinu, öllum almenningi sem heildstæður sjóður sem bæði veitir almenn lán til allra landsmanna en um leið ríki jafnræði í samkeppnisskilyrðum hans og annarra lánastofnana á markaði. Samhliða eigum við að styrkja hinn félagslega hluta Íbúðalánasjóðs og byggja upp öfluga aðstoð við fólk sem þarf á sérstakri aðstoð að halda í húsnæðismálum og eru innan skilgreindra eigna- og tekjumarka eða eru að kaupa sína fyrstu íbúð. Það er verkefnið fram undan.

Það er einnig mikilvægt fyrir stjórnvöld að geta á slíkum tímum sem nú eru gripið til aðgerða í gegnum Íbúðalánasjóð til að bregðast við aðstæðum á fasteignamarkaði. Það eitt og sér sannar réttmæti tilveru Íbúðalánasjóðs. Ef svo heldur fram sem horfir gætu stjórnvöld þurft að grípa til sérstakra aðgerða til að örva fasteignamarkaðinn og þá skiptir Íbúðalánasjóður miklu máli.

Afleiðing af stjórnvaldsaðgerðum undanfarinna ára er líka hrikaleg staða á leigumarkaðnum þar sem fátæku fólki sem ofurselt er leigumarkaðnum bjóðast aðeins okurkjör þar sem nær allar tekjur heimilisins fara í húsaleigu. Við því höfum við verið að bregðast með myndarlegri hækkun á húsaleigubótum sem ekki hafa hækkað í nær 8 ár. Margvíslegar aðrar aðgerðir eru í undirbúningi til að styrkja leigumarkaðinn, og það má nefna félög eins og Búseta og ýmis félagasamtök sem bætt geta kjör leigjenda, auk þess sem ákveðið hefur verið að verja niðurgreiddu fjármagni til að tryggja 3.000 nýjar leiguíbúðir á kjörtímabilinu en það er samsvarandi fjöldi eins og er á biðlistum eftir leiguíbúðum. Afnám stimpilgjalda fyrir fyrstu íbúðakaupendur, auknar vaxtabætur, stofnun húsnæðissparnaðarreikninga, greiðsluaðlögun fyrir skuldug heimili, ný innheimtulöggjöf, allar þessar aðgerðir sem ýmist eru komnar til framkvæmda eða eru í undirbúningi munu bæta stöðu heimilanna og íbúðakaupenda.

Það sem ég hef áhyggjur af núna er að um þessar mundir er að bætast við mjög mikið framboð af húsnæði og voru íbúðir í byggingu í lok árs 2007 á sjöunda þúsund. Sú staða veldur áhyggjum að fjöldi íbúða í byggingu sem ekki selst gæti dregið niður fasteignaverð með óæskilegum hætti. Það þarf að skoða hvernig við því er hægt að bregðast og líka þeirri stöðu að margir eru að lenda í miklum vandræðum vegna þess að þeir hafa fest kaup á nýrri eign án þess að hafa selt þá gömlu. Þetta eru þau vandamál sem við blasa og við verðum að takast á við.

Mikilvægasta verkefni stjórnmálanna um þessar mundir er að skapa stöðugleika í hagkerfinu og vinna gegn verðbólgunni. Það er það sem skiptir máli fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu.