135. löggjafarþing — 107. fundur,  23. maí 2008.

staðan á fasteignamarkaðnum og Íbúðalánasjóður.

[12:19]
Hlusta

Ármann Kr. Ólafsson (S):

Frú forseti. Ljóst er að staðan á íbúðamarkaðnum er núna þannig að markaðurinn er að nálgast frostmark. Þetta má sjá af því að á milli 2.000–2.500 íbúðir eru að seljast núna á mánuði meðan á meðalári voru 5.000–6.000 íbúðir að seljast á mánuði og fóru allt upp í 14.000–15.000 þegar mest lét. Í slíku ástandi er það náttúrlega mjög mikill ábyrgðarhluti þegar ákveðnir áhrifamenn koma og tala niður markaðinn sem er nánast frosinn. Ég held að nauðsynlegt sé að Íbúðalánasjóður verði áfram á þessum markaði. Hins vegar er verkefnið það að jafna samkeppnisstöðuna og það var kannski ekki síst þess vegna sem var svo mikils virði að fá löggjöfina frá hæstv. viðskiptaráðherra í þingið um sérvarin skuldabréf. Þá geta bankarnir farið út fyrir þessi sérvörðu skuldabréf, íbúðabréf, og eins Íbúðalánasjóður. Það hefur verið megingagnrýni bankanna að samkeppnisstaðan er ekki jöfn og það eru líka alveg skýr skilaboð frá ESA að við munum ekki komast upp með þessa ríkisábyrgð.

Ég get upplýst það að á sínum tíma þegar ég var í nefnd sem fjallaði um þessi mál fórum við og heimsóttum Deutsche Bank og þeir sögðu: Ef menn eru með sérvarin skuldabréf þá er það þannig á markaðnum, reyndar getur það verið að einhverju leyti breytt í dag, að menn fá sömu lánshæfiseinkunn á þann pakka eins og á þau bréf sem Íbúðalánasjóður er með í dag. Þar með eiga kjörin ekki að þurfa að versna. Þar með koma fleiri inn á markaðinn og um leið forsendur til að hann örvist á ný. Ég verð að segja alveg eins og er að ég sé ekki annað en að fínn og fullkominn samhljómur sé, ef maður sleppir uppsláttum og útúrsnúningum hjá blöðunum, á milli þessara tveggja ráðherra, hæstv. félagsmálaráðherra og hæstv. fjármálaráðherra, um að Íbúðalánasjóður muni áfram vera á markaðnum og veita lán.