135. löggjafarþing — 107. fundur,  23. maí 2008.

staðan á fasteignamarkaðnum og Íbúðalánasjóður.

[12:21]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að hefja þessa umræðu og hæstv. félagsmálaráðherra fyrir svörin.

Það var eitt sem vakti sérstaka athygli mína í svörum hæstv. félagsmálaráðherra þegar hæstv. félagsmálaráðherra lýsti því hvernig stæði á því ástandi sem væri nú á fasteignamarkaðnum. Hæstv. félagsmálaráðherra sagði að m.a. væri verið að glíma við hagstjórnarmistök síðustu ríkisstjórnar. Ég hlýt að spyrja hvað hæstv. félagsmálaráðherra á við þegar hún talar um hagstjórnarmistök síðustu ríkisstjórnar.

Einnig vakti það athygli mína hvað fyrri talsmaður Sjálfstæðisflokksins hafði fram að færa þar sem svo virtist sem þeim talsmanni Sjálfstæðisflokksins fyndist það allt í góðu lagi þó að um alkul á fasteignamarkaðnum væri að ræða vegna þess að það mundi draga úr soginu suður eins og það var orðað. Ég hlýt að spyrja: Gerir Sjálfstæðisflokkurinn sér ekki grein fyrir að stærsti, raunverulegi atvinnuskapandi hluturinn sem er á þessu svæði, höfuðborgarsvæðinu, er byggingarstarfsemi og síðan í framhaldi af því sala og miðlun fasteigna? Því er um gríðarlega mikilvæg viðskipti að ræða og mikilvæga starfsemi sem ber að hlúa að.

Núna er alkul á markaðnum. Fasteignasalar segja og sögðu mér í morgun að það væri nánast allt dautt, bankarnir lokaðir og jafnvel þó að kæmi kauptilboð þá væri útilokað að kaupendur gætu fengið lán. Spurningin er í þessu ástandi: Hvað geta og eiga stjórnvöld að gera? Það sem við hljótum að gagnrýna er að stjórnvöld skuli ekki hafa brugðist við og gert nauðsynlegar ráðstafanir eins og að afnema þegar stimpilgjaldið. Þess í stað stendur frumvarp um það atriði fast. Í öðru lagi að lengja í lánum. Í þriðja lagi að greiða fyrir lánsviðskiptum. Það er höfuðatriðið. Það er það sem þarf að gera og það er verkefnið sem hæstv. félagsmálaráðherra á að sinna og beita sér fyrir.