135. löggjafarþing — 107. fundur,  23. maí 2008.

framhaldsskólar.

286. mál
[16:15]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Meiri hluti menntamálanefndar fór ekkert öðruvísi að með þetta skólastig en hin. Reynt var að ná sátt um það eins og hin. Sem betur fer náðist sátt um hin þó að greina hefði mátt á umræðunni í gær að svo hefði ekki verið en þannig var það og sameiginleg nefndarálit, að vísu með fyrirvörum. Það sama var reynt hér. En, hv. þm. Guðni Ágústsson, ef þú hefðir setið hér og hlýtt á ræðu hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur hefðir þú miklu meiri möguleika á því, hv. þingmaður, að skilja hvernig á því stóð að ekki náðist sátt. Meðan hv. þingmenn talast við á þann hátt (Gripið fram í.) að það er alveg sama hvað sagt er, hvað skrifað er niður á blað, að því er ekki treyst og því er ekki trúað, meðan þannig er staðið að verki, hv. þingmaður, er mjög erfitt að ná sátt og það er einnig mjög erfitt að ná sátt ef sáttin gengur út á það að (Gripið fram í.) annaðhvort fái menn allt eða ekkert. Þannig náum við ekki sátt. Það þekkir hv. þingmaður.