135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[12:43]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og hv. formaður iðnaðarnefndar veit þá er ég ekki í iðnaðarnefnd. Ég þekki því ekki álit sveitarfélaganna í smáatriðum þó það sé fylgiskjal með áliti 2. minni hluta nefndarinnar. Ég hef lýst yfir fullum stuðningi við málflutning hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur í þessu máli.

Álit sveitarfélaganna er flókið og við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum lýst yfir stuðningi við ákveðin sjónarmið í því, t.d. varðandi það sem sveitarfélögin segja um bókhaldslegan aðskilnað, að hann nægi. Það er eitt af þessum álitamálum sem við teljum að eigi að vera — og þess vegna talaði ég um að fresta ætti því að fara í fyrirtækjaaðskilnaðinn. Það er samdóma álit okkar og Sambands íslenskra sveitarfélaga hvað þetta varðar. Hvað önnur álitamál Sambands íslenskra sveitarfélaga varðar, eins og 99 ára afnotarétt, mundi ég segja að það væri eðlilegt að fara að slíkum hlutum með gát. Mér finnst skipta verulegu máli að við horfum á stöðuna eins og hún er í dag.

Orkufyrirtækin horfa nú í gaupnir sér út af löngum samningum við álfyrirtækin þar sem verðið er bundið miðað við þær aðstæður sem voru þegar samningarnir voru gerðir. Menn sjá í æ ríkara mæli að verulegu máli skiptir að gera samninga sem varða orkuverð til skamms tíma, sérstaklega þegar orkuverðið er að rjúka upp úr öllu valdi. Þó að leynd hvíli yfir orkusölusamningum íslensku orkufyrirtækjanna þá vitum við að hér er kannski verið að selja álfyrirtækjunum raforkuna á einhverju Suður-Afríkuverði sem er langt frá öllum viðmiðunum sem við höfum í Evrópu eða í Norður-Ameríku. Við þekkjum þá umræðu.

Hér er um mörg flókin álitamál að ræða. Við höfum lýst yfir stuðningi við ákveðnar yfirlýsingar Sambands íslenskra sveitarfélaga en aðrar ákvarðanir þeirra eða aðra þætti í áliti þeirra höfum við lítið eða ekkert tjáð okkur um.