135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

réttindi stjórnenda smábáta.

[15:15]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Herra forseti. Ég vil spyrja samgönguráðherra um réttindi á smábáta, skipstjórnarréttindi og vélstjóraréttindi. Svokallaðir skemmtibátar sem notaðir eru til sjóstangveiði eru orðin töluverð útgerð fyrir vestan. Þar taka menn bát á leigu og eru ekki með skipstjórnarréttindi eins og ætlast er til af íslenskum skipstjórnarmönnum. Það eru mest útlendingar sem leigja þessa báta til veiða og hafa hvorki til þess tilskilin réttindi, þ.e. skipstjórnarréttindi né vélstjórnarréttindi. Ég spyr hæstv. ráðherra Kristján Möller hvort það eigi að vera svona, að Íslendingar þurfi að vera með skipstjórnarréttindi og vélstjóraréttindi en útlendingar ekki. Það hefur áhrif á afkomuna í hinu svokallaða litla kerfi, litla fiskveiðistjórnarkerfinu, sem nær yfir trillur. Nú er engan kvóta hægt að fá leigðan á venjulega smábáta vegna þess að þessir tómstundabátar yfirbjóða leiguverð í þorski allt upp í 240 kr. í litla kerfinu. Það gefur augaleið að menn hljóta að stoppa við og spyrja sig að því hvort þetta sé eðlilegt munstur. Ofan á allt liggur svo fyrir frumvarp í þinginu þar sem negla á kvótakerfið á þessa báta.