135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

Sóltúnssamningurinn og framkvæmd hans.

[16:03]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þuríði Backman fyrir að taka þetta mál upp á þessum vettvangi og öðrum þeim sem hér tóku þátt í umræðunni. Eins og komið hefur fram get ég ekki tekið efnislega umræðu af ástæðum sem hafa verið tilgreindar um deilu málsins. Ég held hins vegar að það sé allt í lagi að fara yfir atriði sem komu fram í umræðunni. Mér þótti athyglisvert að heyra ræðu hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar og ég tek undir flest það sem hann sagði. Hann sagði að fjölbreytt rekstrarform væru mjög nauðsynleg til þess að við hefðum viðmið þegar við værum að kaupa þessa þjónustu. Þetta er alveg hárrétt hjá hv. þm. Birki Jóni Jónssyni og það er ekki svo að menn ætli að vera með kreddur í einhverjar áttir þegar menn tala um rekstrarform.

Sá sem hér stendur hefur verið gagnrýndur fyrir ýmislegt, m.a. að einkavæða heilbrigðisþjónustuna. Þó að það sé ekki markmið í sjálfu sér fer því víðs fjarri að einhver sé að útiloka slíkan rekstur, það sér hver maður. Hins vegar er mikilvægt að menn átti sig á því að á Íslandi er heilbrigðisþjónusta að stórum hluta rekin af einkaaðilum og þegar kemur að einkaaðilum í heilbrigðisþjónustu og menntaþjónustu er mjög algengt að til séu sjálfseignarstofnanir og það er sama hvar er í heiminum. Við sjáum almennt ekki slík fyrirtæki eða stofnanir á hlutabréfamörkuðum eða slíku, þess vegna er algjörlega vonlaust að greina eitthvað þar á milli.

Svo að menn hafi það á hreinu, og það skiptir máli að menn séu meðvitaðir um það, að þegar þessi samningur var valinn var það eftir útboð. Eftir á að hyggja hefði kannski verið betra að fleiri hefðu boðið í. Ekki var tekið þeim tilboðum sem komu af því að þau þóttu of há heldur var gengið til samninga við annan aðila. Það er forsaga málsins og það skiptir máli að menn fari rétt með það.

Hins vegar er ég alveg hjartanlega sammála því sem ég held að við flest séum sammála um, að mikilvægt er að hafa skýra samninga og gott eftirlit. Við erum að vinna með það og erum þess vegna að leggja fram frumvarp um sjúkratryggingastofnun til að styrkja þann þátt enn frekar.