135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

leikskólar.

287. mál
[16:38]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Komið er að því að greiða atkvæði um þær greinar er varða gjaldtöku í leikskólanum. Tillaga mín sem hér eru greidd atkvæði um gerir ráð fyrir því að stofnun og rekstur leikskóla verði á kostnað og í umsjón sveitarstjórna. Þær sjái um framkvæmd þessara laga hver í sínu sveitarfélagi og ekki skuli innheimt gjald fyrir leikskólavist barna. Það er eitt af grundvallarstefnumiðum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að leikskólinn og reyndar grunnskólinn verði gjaldfrjáls. Leikskólinn er fyrsta skólastigið og það skiptir verulegu máli ef við eigum að tryggja jafnræði til náms og jafnræði allra barna til leikskólavistar að það sé tryggt gjaldfrelsi í þeim efnum. Við erum með viðleitni í þá átt í þessum breytingartillögum sem hér er verið að flytja þannig að ég hvet hv. þingheim til að skoða hug sinn vel hvað þetta varðar og styðja sjónarmið um gjaldfrjálsan leikskóla.