135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[22:43]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Ég ætla að halda áfram í ræðu minni hér þar sem ég hætti í fyrri ræðu minni.

Auðvitað er hér tekist á. Hér er tekist á um almannaþjónustuna, hvort hún á að vera í forsjá og eigu almennings eða hvort hún á að vera í höndum einkaaðila að hluta til eða að öllu leyti og lúta kröfunni um arðsemi fjármagnsins. Auðvitað er fátt arðvænlegra en að fá að eiga hlut í raforkufyrirtæki eða fyrirtæki sem dreifir raforku, það er svo pottþétt. Það er miklu betra en að eiga hlut í fataverslun. Sama er með aðra almannaþjónustu. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum lagt fram tillögu til þingsályktunar vegna þessarar einkavæðingar sem hefur verið drifin áfram á undanförnum árum, m.a. í orkugeiranum, og á að keyra hér áfram með. Það er nefnilega verið að fara skref fyrir skref.

Þess vegna vitnaði ég til þess í ræðu minni áðan þegar ég starfaði í svokallaðri 19 manna nefnd þegar var verið að ræða þessi fyrstu skipti. Þá voru menn með mikla svardaga um að þetta mundi ekki hafa nein áhrif. Þetta mundi alls ekki leiða til hækkana á rafmagni, nei, uppskiptingin mundi frekar lækka kostnaðinn til hins almenna notanda því að samkeppnin sæi til þess.

Við fluttum hér tillögu til þingsályktunar fyrr í haust, á þskj. 3, eitt fyrsta mál þingsins þar sem við óskuðum eftir því að þetta væri þá bara tekið út og kannað yrði hver árangurinn hefði orðið í einkavæðingu almannaþjónustunnar á undanförnum árum. Við höfum dæmin. Það er búið að einkavæða raforkuna, það er búið að hlutafélagavæða fyrirtækin, það er búið að krefjast markaðsvæðingar í raforkunni, uppskiptingar á milli framleiðslu og dreifingar. Það er búið að einkavæða og selja Landssímann, fjarskiptin sem voru jú einn af grunnvegum til eflingar atvinnulífi og jöfnuði í samkeppni um allt land. Hver hefur árangurinn orðið? Hefur þjónustan orðið betri? Hefur hún orðið ódýrari? Hefur hún orðið hagkvæmari? Við viljum fá úr þessu skorið. Einkavæðing á bönkunum öllum í einu — við drógum það í efa og lögðumst gegn því að það væri gert. Við viljum fá úttekt og sjá hvort þetta hefur leitt til góðs. Er þjónustan betri? Er hún ódýrari? Er hún hagkvæmari fyrir almenning? Er hún betri fyrir starfsfólkið? Þessu viljum við fá nákvæma úttekt á áður en haldið er áfram á þessari braut. Svona mætti lengi áfram telja. Þess vegna lögðum við til, herra forseti, að gerð yrði ítarleg rannsókn á áhrifum og afleiðingum markaðsvæðingar samfélagsþjónustunnar.

Í tillögugrein okkar á þskj. 3, sem lýtur einmitt að því sem við fjöllum um hér, segir, með leyfi forseta:

„Könnuð verði reynslan af markaðs- og einkavæðingu viðfangsefna ríkis og sveitarfélaga hér á landi og einnig verði dregnar saman og hafðar til hliðsjónar helstu niðurstöður rannsókna á slíkum breytingum erlendis. Sérstök verkefnisstjórn hafi yfirumsjón með rannsókninni, skipuð einum fulltrúa frá hverjum þingflokki sem og einum fulltrúa frá hverjum um sig, Alþýðusambandi Íslands, Samtökum atvinnulífsins og BSRB, en formann hópsins skipi forsætisráðherra án tilnefningar.“

Við lögðum til að gengið yrði mjög hratt til verks, verklok skyldu vera fyrir 1. október 2008 og fallið yrði frá öllum áformum um frekari einkavæðingu og einkarekstur þar til niðurstöður skýrslunnar lægju fyrir. Það tel ég eðlilegt í þeim gríðarlegu samfélagsbreytingum sem hafa átt sér stað nú í kjölfar þessarar einkavæðingar að numið verði staðar og gerð úttekt á hvernig farið hafi. Þetta hefur því miður ekki enn fengist fram og enn er hér keyrt áfram í að einkavæða orkugeirann með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

Ég er með lítið dæmi hér í höndunum, herra forseti, frétt um bréf frá hótelstjóranum á Hellnum á Snæfellsnesi sem lýsir því hvernig raforkuverð til fyrirtækja á köldum svæðum hafi stórhækkað skyndilega eftir breytinguna á raforkulögunum.

Guðrún Bergmann, hótelstjóri á Hellnum, segir, með leyfi forseta:

Ný orkulög og verðhækkanir skekkja samkeppnisstöðu fyrirtækjanna.

Þetta er frá því 27. nóvember 2006 þar sem segir að Guðrún Bergmann, hótelstjóri á Hótel Hellnum, hafi skrifað iðnaðarráðherra og óskað eftir því fyrir hönd fyrirtækis síns, og annars sem er fyrirtæki í ferðaþjónustu, að raforkuverði til fyrirtækja á svokölluðum köldum svæðum verði breytt. Síðan er rakið hvernig níðst er á verðlagningu raforkunnar til þessara aðila í dreifbýli.

Ég minnist líka bréfs frá formanni Félags ferðaþjónustubænda á aðalfundi þeirra þar sem kvartað er yfir þessu sama. Ég minnist ályktana frá búnaðarþingi þar sem bent er á að eftir að svokölluð markaðsvæðing var innleidd í raforkukerfið hér á landi hafi raforka snarhækkað til þessara aðila. Var það ætlunin? Það var ekki það sem lofað var en það er nú svo að það er ekki hægt að draga ráðherra til ábyrgðar fyrir svikin loforð. En flest af því sem lofað var og átti að leiða til betri tíma við markaðsvæðingu raforkukerfisins, hin nýju raforkulög, hefur verið svikið.

Þess vegna finnst mér alveg magnað ef nú á að halda áfram á sömu braut markaðsvæðingar og einkavæðingar orkugeirans eins og hér er verið að gera án þess að staldrað sé við og farið að tillögum okkar vinstri grænna um að gerð verði úttekt á því hvernig það hafi gengið til.

Í 13. gr. er fjallað um breytingu á vatnalögum þar sem sagt er að þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. sé heimilt að framselja réttindi til ríkis, sveitarfélags eða félags sem er alfarið í eigu ríkis og sveitarfélaga til að fara með eignarhald þessara réttinda. En síðan er sagt að heimilt sé að veita tímabundinn afnotarétt á réttindum til allt að 65 ára í senn og þar er líka minnst á þjóðlendur.

Ég minnist þess máls sem kom inn á Alþingi fyrir líklega þremur árum síðan þegar þáverandi formaður Framsóknarflokksins, Halldór Ásgrímsson, flutti hér frumvarp um að afhenda til eignar vatnasvæði Búrfellsvirkjunar til Landsvirkjunar sem þá þegar var inni og úrskurðað sem þjóðlenda. Það hleypti málinu náttúrlega öllu í uppnám að ríkið gerði kröfur um að fá úrskurðað land sem þjóðlendu — gott og vel með það í sumum tilfellum en í öðrum tilfellum er það vafasamara. Þá er kannski verið að deila við landeigendur sem eru náttúruunnendur í sjálfu sér og vilja ógjarnan missa auðlindir sínar undir þessa stefnu ríkisstjórnarinnar að leigja náttúruperlur undir virkjunarframkvæmdir til allt að 65 ára í senn. Ég spyr: Er það ætlunin að heimilt sé að það gerist innan þjóðlendna? Ég dreg það stórlega í efa að lögin um þjóðlendur heimili að ríkið geti veitt eða selt þessi réttindi til 65 ára í þjóðlendum. Það er þá eins gott að hafa það þá á hreinu í þeim umræðum um þjóðlendurnar sem standa á milli ríkisins annars vegar og landeigenda hins vegar.

Við höfum lagt áherslu á það í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði að sett yrðu mjög skýr lagafyrirmæli um meðferð þjóðlendna, um meðferð þeirra auðlinda sem falla innan marka þjóðlendna. Það eigi að vera hluti af því ferli sem þar er. Því held ég að það yrði líka miklu meiri sátt um þjóðlendumálið ef það lægi skýrt fyrir að það væri ekki heimild fyrir ríkið til að ráðstafa auðlindum eins og (Forseti hringir.) virkjunarrétti til svo langs tíma eins og þarna er um að ræða. Þetta eru jú þjóðlendur (Forseti hringir.) og náttúruperlurnar væru varðar þó að þær séu innan þjóðlendna.