135. löggjafarþing — 109. fundur,  27. maí 2008.

neytendalán.

537. mál
[12:35]
Hlusta

Frsm. viðskn. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti viðskiptanefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 121/1994, um neytendalán, með síðari breytingum.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Magnús Norðdahl frá Alþýðusambandi Íslands, Hildigunni Hafsteinsdóttur frá Neytendasamtökunum, Guðjón Rúnarsson, Guðlaugu B. Ólafsdóttur og Odd Ólason frá Samtökum fjármálafyrirtækja, Áslaugu Árnadóttur og Sigríði Rafnar Pétursdóttur frá viðskiptaráðuneyti og Harald Inga Birgisson frá Viðskiptaráði.

Með frumvarpinu er lagt til að gerðar verði breytingar á lögum um neytendalán í því skyni af efla neytendavernd. Breytingarnar sem lagðar eru til varða heimildir lánveitenda til gjaldtöku, skyldu til upplýsingagjafar gagnvart neytendum og lengingu frests neytenda til að gera kröfu um greiðslu tryggingarfjár skv. 18. gr. laganna.

Ákvæði 1.–3. gr. frumvarpsins byggjast á tillögum starfshóps sem viðskiptaráðherra skipaði 29. ágúst 2007 til að gera úttekt á lagaumhverfi að því er varðar viðskipti neytenda og fjármálafyrirtækja í ljósi nútímaviðskiptahátta, einkum með tilliti til gjaldtöku.

Helstu niðurstöður starfshópsins voru þær að bankar og sparisjóðir heimili ekki fyrirtækjum eða öðrum kröfuhöfum að bæta fylgikröfum við aðalkröfu gagnvart neytendum. Starfshópurinn lagði jafnframt til að lögfestar yrðu reglur um takmarkanir á álagningu uppgreiðslugjalda. Þá kom fram hjá starfshópnum að óheimilt væri að innheimta svonefndan FIT-kostnað (kostnað vegna óheimils yfirdráttar) nema slík gjaldtaka ætti stoð í samningi og lagt til að fest yrði í lög að slíkur kostnaður skyldi vera hóflegur og endurspegla kostnað vegna yfirdráttarins.

Í 1. gr. frumvarpsins er lagt til að lögfest verði að gjaldtaka vegna óheimils yfirdráttar af tékkareikningi skuli vera hófleg og endurspegla kostnað vegna yfirdráttarins og að hún skuli eiga stoð í samningi. Í 2. gr. frumvarpsins er lagt til að lögfest verði skylda lánveitanda til upplýsingagjafar gagnvart neytanda um fyrirhugaðar breytingar á gjaldskrá sem honum eru ekki til hagsbóta og skal neytandi hafa val um nánar tilgreindar leiðir til móttöku upplýsinganna. Með 3. gr. frumvarpsins er lagt til að lögfest verði ákvæði um uppgreiðslugjald. Í 4. gr. frumvarpsins er lagt til að frestur neytanda til að gera kröfu um greiðslu tryggingarfjár skv. 18. gr. laganna lengist úr einu ári í tvö, eða í fimm ár þegar um ræðir söluhlut sem er ætlaður verulega lengri endingartími en almennt gerist.

Nefndin leggur til að tvær breytingar verði gerðar á frumvarpinu. Annars vegar leggur hún til breytingu á 2. gr. um upplýsingaskyldu lánveitanda um fyrirhugaðar breytingar á gjaldskrá. Leggur nefndin til að lánveitandi teljist uppfylla skyldur sínar samkvæmt ákvæðinu veiti hann neytanda upplýsingarnar á heimasíðu sinni, í netbanka eða tölvupósti. Samkvæmt breytingartillögunni er gert ráð fyrir því að upplýsingar um fyrirhugaðar breytingar á gjaldskrá skuli aðeins veittar skriflega hafi neytandi óskað eftir því. Hins vegar leggur nefndin til orðalagsbreytingu á 1. mgr. 3. gr. Lýtur breytingin að því að í stað þess að kveðið sé á um að óheimilt sé að krefjast greiðslu uppgreiðslugjalds af eftirstöðvum láns í íslenskum krónum með breytilegum vöxtum verði mælt fyrir um að óheimilt sé að krefjast greiðslu uppgreiðslugjalds af láni í íslenskum krónum með breytilegum vöxtum. Er breytingin talin nauðsynleg þar sem orðalag frumvarpsins getur gefið tilefni til rangra gagnályktana.

Á vettvangi Evrópusambandsins er væntanleg ný tilskipun um neytendalán. Gert er ráð fyrir að hún muni kveða á um innleiðingu samkvæmt orðanna hljóðan öfugt við gildandi tilskipanir. Með hliðsjón af þessu er ljóst að lög um neytendalán munu taka einhverjum breytingum á komandi árum.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Hv. þm. Jón Magnússon sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hann samþykkur áliti þessu.

Undir álitið skrifa hv. þingmenn Ágúst Ólafur Ágústsson, Guðfinna S. Bjarnadóttir, Jón Bjarnason, Birgir Ármannsson, Árni Páll Árnason, Valgerður Sverrisdóttir, Jón Gunnarsson, Björk Guðjónsdóttir og Höskuldur Þórhallsson.