135. löggjafarþing — 109. fundur,  27. maí 2008.

fullgilding Palermó-samnings gegn fjölþjóðlegri skipulagðri glæpastarfsemi.

493. mál
[13:09]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er eiginlega ekki svaravert andsvar. Við höfum gert grein fyrir okkar almennu afstöðu í þessum efnum og ágreiningur um utanríkis- eða varnarmál á kannski ekki endilega mikið erindi inn í þessa umræðu að mínu mati. Fjársóun í tilgangslausar heræfingar suður á Keflavíkurflugvelli er lítið innlegg í að takast t.d. á við afleiðingar klámvæðingarinnar innan lands. Ég veit ekki betur en kynferðisbrotadeild lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu sé þar lykilstofnun þannig að það kássast lítið upp á ríkislögreglustjóra.

Auðvitað skiptir máli að hafa viðbúnað t.d. til að takast á við hópa sem hafa stundum reynt að ná hér fótfestu eins og glæpaklúbbar sem starfa undir því yfirskini að þeir séu áhugamenn um mótorhjól. En það réttlætir ekki að bjaga öll hlutföll í framlögum til löggæslumála þannig að hin almenna löggæsla og grenndargæsla í landinu sé sársvelt en eitt tiltekið embætti tútni alltaf út. Menn geta endalaust fundið sér einhvern ímyndaðan óvin úti í heimi til að réttlæta fjáraustur í einhverja slíka hluti. En ég held að það sé miklu nær að gera tilteknar og nauðsynlegar lagalegar ráðstafanir, að hafa hinar almennu löggæslu og grenndargæslu virka og í návígi við viðfangsefni sitt. Við þurfum að hafa allt stoðkerfið sem þarf að vera til staðar í þessum málum, allt frá neyðarathvörfum og móttöku fórnarlamba, vitnavernd og annað í þeim dúr, vel uppbyggt og þróað. Við þurfum svo sem ekkert að finna upp hjólið í þeim efnum. Það má vísa til ríkja eins og Austurríkis þar sem slíkur viðbúnaður allur er mjög þróaður og mikið í hann lagt enda höfum við barist fyrir því við vinstri græn að innleiða ýmislegt jákvætt m.a. úr þeirra löggjöf eða sænskri löggjöf um vændismál eða annað í þeim dúr. Ég verð því að hryggja hv. þm. Jón Gunnarsson með því að ég held að hann hafi ekki skorað mikið gagnvart því að hann komi að tómum kofunum þegar hann mætir Vinstri hreyfingunni – grænu framboði um þessi mál.