135. löggjafarþing — 110. fundur,  27. maí 2008.

almennar stjórnmálaumræður.

[20:52]
Hlusta

Guðfinna S. Bjarnadóttir (S):

Forseti. Góðir landsmenn. Efnahagsmálin hafa verið fyrirferðarmikil á þinginu í vetur. Skortur á lánsfé hefur komið sér illa fyrir íslenska fjármálakerfið og hækkandi heimsmarkaðsverð á nauðsynjavörum hefur valdið verðhækkunum hér heima. Verðbólgan hefur aukist og gengi krónunnar lækkað. Við finnum öll fyrir þessu og þingið tekur ástandið að sjálfsögðu alvarlega. Ríkisstjórnin hefur að mínu viti tekið á þessum málum af yfirvegun og náð að greina aðalatriði frá aukaatriðum. Hún hefur ekki fallið í þá freistni að grípa til friðþægingaraðgerða heldur styrkt grunnstoðir efnahagslífsins. Ríkisstjórn á ekki að dæma eftir því hvernig vindar blása hverju sinni heldur á að dæma hana eftir því hvernig hún býr í haginn fyrir framtíðina.

Við höfum borið gæfu til þess að taka réttar ákvarðanir og stuðla að fjölbreyttu, skapandi og kröftugu atvinnulífi með því að minnka umsvif ríkisins, treysta á frumkvæði einstaklinganna og skapa þeim skilyrði til að láta til sín taka. Það er því engin ástæða til annars fyrir okkur Íslendinga en að vera bjartsýn þegar við horfum fram á veginn.

Á undanförnum árum höfum við áttað okkur betur og betur á því hve menntun skiptir miklu máli fyrir samkeppnishæfni landsins. Velgengni okkar á næstu árum mun byggjast á því hversu vel tekst til í menntamálum þjóðarinnar því að menntastefna okkar er í senn efnahags-, atvinnu,- menningar- og samfélagsstefna þjóðarinnar. Þekking er undirstaða framfara og atvinnusköpunar og þar með grundvöllur öflugs samfélags.

Þróunin í menntamálum hefur verið hröð á undanförnum árum. Með háskólalögunum frá 1997 var stofnun einkarekinna háskóla gerð möguleg og með rammalöggjöf um háskóla árið 2006 var háskólum veitt aukið faglegt frelsi í innri málum auk þess sem áhersla á gæðamál var stórefld. Þessar umbætur hafa verið lykillinn að stórfelldri menntasókn á háskólastiginu undanfarin ár. Fjöldi háskólanema hefur meira en tvöfaldast á einum áratug og hlutfall starfsmanna á vinnumarkaði með háskólapróf hefur sömuleiðis nærri tvöfaldast. Árið 1997 voru einungis 13% starfsmanna hér á landi með háskólapróf en í fyrra var sambærilegt hlutfall 22%. Þessu ber að fagna. Fjárframlög til rannsókna hafa stóraukist að sama skapi og gert er ráð fyrir 85% aukningu milli áranna 2007 og 2011. Þetta er glæsilegur árangur á ekki lengri tíma og ég hlakka til að sjá enn frekari sókn í menntamálum á komandi árum. Í þessu sambandi eru skólafrumvörp menntamálaráðherra, sem vonandi verða afgreidd nú í þinglok, sérstaklega mikilvæg. Með þeim er lagaramminn um leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla endurbættur. Á grundvelli þessara metnaðarfullu frumvarpa er markmiðið að menntun barna og unglinga á Íslandi verði til fyrirmyndar á alþjóðavísu.

Annar málaflokkur sem ég vil nefna eru heilbrigðismálin. Áhugavert hefur verið að fylgjast með breytingum sem þar hafa orðið undanfarið ár. Með stefnumörkun okkar sjálfstæðismanna að leiðarljósi hefur verið hafist handa við að stytta biðlista, auka hagkvæmni og efla þjónustu með útboðum og þjónustusamningum. Fyrir þinginu liggur nú frumvarp heilbrigðisráðherra um sjúkratryggingastofnun. Tilgangur frumvarpsins er að styrkja hlutverk ríkisins sem kaupanda heilbrigðisþjónustu og tryggja að fjölbreyttari rekstrarform nýtist í þágu landsmanna. Á sama hátt hafa útboð í lyfjamálum og samstarf við hin Norðurlöndin leitt til þess að um milljarður hefur sparast í lyfjakostnaði. Við erum með öðrum orðum að beita nútímalegum leiðum til þess að nálgast það markmið sem einhuga samfélagsleg sátt ríkir um og það er að Íslendingar njóti á hagkvæman máta fyrsta flokks heilbrigðisþjónustu óháð efnahag.

Góðir landsmenn. Mig langar að lokum að ræða um þau störf í þjóðfélaginu sem lúta að menntun og heilbrigði landsmanna. Þau eru í miklum meiri hluta á vegum hins opinbera eins og er. Eitt stærsta viðfangsefni 21. aldarinnar er að veita þessum störfum þann sess, þau laun og þá virðingu sem þau eiga skilið. Á meðan þessi störf eru nánast öll á hendi eins og sama vinnuveitandans, þ.e. ríkisins, verður róðurinn þungur. Ekki vegna þess að stjórnmálamenn vilji ekki gera vel við þessar mikilvægu stéttir heldur einfaldlega vegna þess að kjarasamningar og opinberir launataxtar eru ósveigjanlegra kjaraform en einstaklingsbundnir samningar eins og tíðkast í einkageiranum. Við verðum að hugsa um þetta rekstrarform, við verðum að hugsa um þetta upp á nýtt og hvetja til aukinnar nýsköpunar og opna sviðið í þessum greinum.

Góðir Íslendingar. Hinn magnaði frumkvöðlaandi og sá kraftur sem býr í þjóðinni eru auðæfi hennar. Þessi kraftur hefur fleytt okkur mjög langt og mun gera það áfram um ókomin ár og þannig munum við í sameiningu halda áfram á vit nýrra og spennandi tækifæra í menningar- og efnahagslífi þjóðarinnar. — Ég þakka áheyrnina.