135. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2008.

stimpilgjald.

548. mál
[19:28]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni Pétri Blöndal að steypusala hefur verið mikil á undanförnum missirum. Ég hef einmitt kannað það og það er alveg rétt fullyrðing. En það er jafnframt sagt að það verði ekki mikið fram undan þegar líður á árið.

Eins og ég rakti áðan við umræðurnar og benti á þá skríður kulið hægt inn á þennan markað en þegar það er komið þá er erfitt að koma hjólunum í gang aftur og það er það sem menn verða að horfa á. Menn geta ekki horft bara niður fyrir tærnar á sér og haldið að endir vegferðarinnar sé þar. Menn verða að horfa fram og átta sig á því að það ber að líta til þess sem er greinilegt út við sjóndeildarhringinn og það finnst mér nefndin og hv. þm. Pétur Blöndal ekki hafa gert þegar verið er að skilgreina hvernig hér er staðið að málum.

Varðandi meintar skattalækkanir þá er það alrangt að skattar hafi verið lækkaðir í tíð núverandi eða fyrrverandi ríkisstjórnar. Við höfum sett hvert skattametið af öðru innan OECD og um helmingur af vergri þjóðarframleiðslu er tekinn af hinu opinbera. Það er verið að hækka og hækka á hverju árinu. Og hvernig getur það hækkað ef skattar eru lækkaðir umtalsvert? Það er af því að það eru bara sumir skattar sem hafa lækkað. Hvaða skattar hafa lækkað? Það var lækkaður skattur á fyrirtækjum en hins vegar hefur ekki verið um að ræða að afsláttur eða skattleysismörk hafi verið hækkuð þannig að skattarnir hafa bitnað með meiri og meiri þunga á þeim sem minnst hafa fyrir sig að leggja og það höfum við frjálslynd gagnrýnt í langan tíma. Útgjöld hins opinbera hafa verið að vaxa.