135. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2008.

endurskoðendur.

526. mál
[20:55]
Hlusta

Frsm. efh.- og skattn. (Pétur H. Blöndal) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um endurskoðendur frá efnahags- og skattanefnd sem er að finna á þskj. 1049. Á því þingskjali kemur fram hvaða gesti nefndin fékk til sín og hvaða umsagnir bárust og einnig er lýsing á frumvarpinu.

Nokkuð var rætt á fundum nefndarinnar um lagalega þýðingu alþjóðlegra endurskoðunarstaðla, sem vísað er til í 9. gr. frumvarpsins, og hvernig rétt sé að standa að innleiðingu þeirra. Er því frekar lýst í nefndarálitinu.

Þá ræddi nefndin um inntak og eðli siðareglna, einkum í ljósi skyldu endurskoðenda til að eiga aðild að Félagi löggiltra endurskoðenda, og er það einnig rætt frekar í nefndarálitinu.

Loks ræddi nefndin skilgreiningu frumvarpsins á hugtakinu „eining tengd almannahagsmunum“ en í frumvarpi sem fjármálaráðherra leggur fram samhliða og varðar breytingu á lögum um ársreikninga (mál nr. 527) er kveðið á um að við slíka einingu skuli starfa endurskoðunarnefnd sem skipuð sé þremur mönnum hið minnsta. Samtök fjármálafyrirtækja lögðu áherslu á að smáir og meðalstórir sparisjóðir og fjármálafyrirtæki yrðu undanþegin skyldu til að koma á fót endurskoðunarnefnd. Þá töldu Landssamtök lífeyrissjóða að með því að fella lífeyrissjóði undir hugtakið væri að ástæðulausu verið að ganga lengra en gert er ráð fyrir í tilskipuninni sem liggur frumvarpinu til grundvallar. Vísa samtökin til þess að íslensku lífeyrissjóðirnir búi nú þegar við margfalt eftirlitskerfi. Fulltrúar fjármálaráðuneytisins tóku ekki undir framangreindar röksemdir og fulltrúi félags löggiltra endurskoðenda taldi að ekki væri ástæða til að ætla að umræddur áskilnaður hefði mikinn kostnaðarauka í för með sér. Fram kom að mikilvægi endurskoðunarnefnda fælist einna helst í aðkomu að vali á endurskoðanda fyrir eininguna og eftirliti með því að sami endurskoðandinn starfaði ekki samfellt lengur en sjö ár við endurskoðun einingar tengdrar almannahagsmunum.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í þingskjali 1050.

Hv. þingmenn Bjarni Benediktsson, Ragnheiður Elín Árnadóttir og Ögmundur Jónasson gera fyrirvara við álitið. Fyrirvari hv. þingmanna Bjarna Benediktssonar og Ragnheiðar Elínar Árnadóttur varðar málsmeðferð við innleiðingu ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar. Hv. þm. Bjarni Benediktsson gerir einnig fyrirvara er lýtur að félagaskyldu.

Hv. þingmenn Gunnar Svavarsson og Paul Nikolov voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir nefndarálitið rita hv. þingmenn Pétur H. Blöndal, Ellert B. Schram, Ögmundur Jónasson, með fyrirvara, Bjarni Benediktsson, með fyrirvara, Magnús Stefánsson, Ragnheiður E. Árnadóttir, með fyrirvara, og Lúðvík Bergvinsson.