135. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2008.

atvinnuréttindi útlendinga o.fl.

338. mál
[21:30]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég skrifaði undir nefndarálitið án fyrirvara enda styð ég þær aðgerðir sem þar er lagt til. En ég sakna þess að í nefndaráliti er ekki rætt um veigamikið atriði sem ég nefndi í 1. umr. að þetta frumvarp er afskaplega ójafnréttissinnað.

Það skiptir mannkyninu eiginlega í nokkra hópa. Það er í fyrsta lagi gáfumannahópurinn eða sérfræðingarnir sem við viljum gjarnan fá til Íslands og gerum vel við þá. Síðan er það íþróttafólkið sem er búið góðum hæfileikum og við gerum líka vel við. Og svo er það fólk sem við getum notað í stuttan tíma en viljum svo að fari aftur í burtu eftir tvö ár.

Þetta er lýsing á ákveðinni stöðu í heiminum sem er ákveðinn raunveruleiki sem ég fellst á. Það lýsir í rauninni hvernig Evrópusambandið lokar fátækt fólk frá því að komast inn. Allir íbúar Evrópusambandsins mega koma hingað, við erum að ræða um fólk fyrir utan Evrópusambandið. Við höldum þeirri stefnu og ég skrifa undir nefndarálitið vegna þess að raunveruleikinn er sá að ef við mundum hleypa hér inn fólki án kvaða, án skilyrða, þá er hættan sú að hér kæmu milljónir ef ekki tugir milljóna manna til að njóta góðra lífskjara á Íslandi, þ.e. fólk sem sveltur, fólk sem þarf að lifa af minna en á einum dollara á dag eða á tveimur dollurum. Talið er að fjórðungur mannkyns þurfi að lifa af minna en einum dollara á dag og að helmingur mannkyns lifi á minna en tveimur dollurum á dag. Það fólk mundi náttúrlega sjá miklu betri lífskjör á Íslandi.

Þess vegna vildi ég benda á að við veljum þarna úr fólk sem eru sérfræðingar, er sem sagt gáfað og hefur menntun. Við veljum úr fólk sem skarar fram úr í íþróttum og viljum fá það inn í landið, annars vegar fyrir atvinnulífið og hins vegar fyrir íþróttalífið. Atvinnulífið þarf prófessora og sérfræðinga og doktora o.s.frv. og svo þarf atvinnulífið öðru hverju verkamenn til að vinna og þá er þeim hleypt inn í tvö ár að hámarki. Þá skulu þeir fara aftur út til þess að gæta þess að þeir ílendist ekki. En ómenntað fólk sem ekki skarar fram úr í íþróttum á lítinn möguleika á að komast til Íslands.