135. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2008.

fæðingar- og foreldraorlof.

387. mál
[22:49]
Hlusta

Frsm. meiri hluta fél.- og trn. (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir framhaldsnefndaráliti frá meiri hluta félags- og tryggingamálanefndar um frumvarp til laga um breytingar á lögum nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum.

Málinu var vísað aftur til félagsmálanefndar vegna þess að fram kom ósamræmi á milli nefndarálits og lagatexta varðandi heimild til að sækja gögn frá skattyfirvöldum til handa Vinnumálastofnun til þess að fylgjast með þegar sótt væri um fæðingarorlof. Í framhaldsnefndarálitinu er tekinn af allur vafi um að þessi heimild er til staðar, þ.e. til að sækja þessi gögn. Það var raunar fyrir í lögunum en það skal vera með samþykki þess sem sækir um fæðingarorlof og klárlega ljóst að ef viðkomandi leyfir ekki að þessi gögn séu sótt þá getur viðkomandi ekki fengið fæðingarorlof.

Það sem við vorum að skerpa á er að það þarf að vera með vitund og samþykki viðkomandi að þessi gögn séu sótt en ágreiningur var í nefndinni um hvort viðkomandi gæti neitað og krafist þess að fá að skila gögnunum sjálfur. Meiri hluti nefndarinnar taldi af fenginni reynslu svo ekki vera og vegna þess hvernig þetta er í framkvæmd þá sé nóg að viðkomandi sé upplýstur um að þessi gögn verði sótt og var það því látið duga.

Ég held að það þurfi ekki frekari skýringar. Það eru skýringar í nefndarálitinu á smærri atriðum en þetta er sem sagt útskýring á því sem kom upp við 2. umr. og hér liggja fyrir breytingartillögur í framhaldi af því.