135. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[12:32]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég stenst nú ekki þá freistingu að segja nokkur orð í þessari umræðu sem fram fer um orkumálin vegna þess að það hafa stór orð verið látin falla um þetta mál, það séu algjör tímamót í sögu þjóðarinnar að þetta mál skuli hafa komið fram og að það sé um það bil búið að samþykkja það. Það hefur verið ástundað talsvert mikið sjálfshól, vil ég meina, sérstaklega af hálfu þingmanna Samfylkingarinnar og hæstv. iðnaðarráðherra.

Það rifjast upp fyrir mér að það var nokkurt fjaðrafok í kringum það þegar fyrrverandi ríkisstjórn seldi um 16% hlut í Hitaveitu Suðurnesja. Hún gerði það með fyrirvara um að íslensk orkufyrirtæki í opinberri eigu mættu ekki bjóða í hlutinn og bar við samkeppnisástæðum og lögum um samkeppnismál. Síðar gerðist það að Samkeppniseftirlitið staðfesti þessa skoðun fyrrverandi ríkisstjórnar um að það hefði ekki verið í samræmi við samkeppnislög ef þessir hlutur hefði verið seldur opinberum aðilum svo sem orkufyrirtækjum. Það mál vannst því að fullu af hálfu fyrrverandi ríkisstjórnar.

En lítum nú aðeins á hvað verið er að gera hér með því að samþykkja þetta frumvarp sem hér er til umfjöllunar. Þar er verið að tala um að selja megi 49% í sérleyfisþætti fyrirtækisins, Hitaveitu Suðurnesja, og að selja megi 100% í framleiðsluþættinum. Út á það gengur þetta frumvarp sem við erum að fjalla um í dag. (Gripið fram í.) Og nákvæmlega það sama varðar Orkuveitu Reykjavíkur.

Hvað með öll stóru orðin sem voru látin falla út af 16% fyrir bara örfáum mánuðum síðan? Hvernig ætlar Samfylkingin að útskýra að hún er hér að leggja til að það megi selja svona gríðarlega mikið meira í sérleyfisþættinum og það megi selja allt framleiðslufyrirtækið. Þetta frumvarp tekur á engan hátt á málefnum Landsvirkjunar eins og öllum er ljóst.

Landsvirkjun er framleiðslufyrirtæki þannig að samkvæmt þessu frumvarpi, verði það að lögum, er ekkert sem kemur í veg fyrir að Landsvirkjun verði seld 100%. En ég geri mér grein fyrir að það þarf að breyta öðrum lögum til þess. En það er ekki verið að girða fyrir það í þessum lögum að selja Landsvirkjun. Þetta er nú það frumvarp sem Samfylkingin ber sér á brjóst út af og talar um það sem sögulegan viðburð á hv. Alþingi.

Síðan er það nefndin sem hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir hefur gert talsvert úr að sé mikið skref og mikilvægt mál. Eins og ég lét koma fram hérna í atkvæðaskýringum fyrir nokkrum dögum þá er með þessu ákvæði, verði það samþykkt, í raun verið að taka málið úr höndum iðnaðarráðherra. Og eins og ég ýjaði að þá er það augljóslega til þess að sætta málið á milli stjórnarflokkanna að það sé forsætisráðherra sem skipar þessa nefnd sem samkvæmt síðustu upplýsingum er nú óþörf að mati formanns þeirrar auðlindanefndar sem skilaði af sér miklu áliti. (Gripið fram í.) Jæja, það er svona allt að því óþarft, hún er alla vega ekki algjörlega nauðsynleg, svo ég dragi nú aðeins úr orðum mínum.

Það er mjög margt sem hægt er að gera hér mikið mál úr en ég veit að við erum að ljúka þingstörfum og því er ekki ástæða til þess að orðlengja þetta. En þetta vildi ég að kæmi hér fram.