135. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2008.

viðauki við fjögurra ára samgönguáætlun 2007--2010.

519. mál
[13:37]
Hlusta

Frsm. samgn. (Steinunn Valdís Óskarsdóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um tillögu til þingsályktunar við viðauka við fjögurra ára samgönguáætlun 2007–2010. Samgöngunefnd hefur fjallað um málið og fengið fjölmarga gesti á sinn fund og fjölmargar umsagnir.

Með þingsályktunartillögunni er lagt til að ýmsum framkvæmdum verði flýtt á landsbyggðinni, bæði í vega- og flugmálum, í því skyni að styrkja innviði byggðanna. Þá er lagt til að ýmsum hafnarframkvæmdum verði frestað sem leiðir af tekjusamdrætti hafnarsjóða vegna aflasamdráttar og að öðrum verði flýtt vegna breyttra atvinnuhátta.

Á fundum nefndarinnar kom fram að viðaukinn fæli í sér breytingar frá gildandi samgönguáætlun til samræmis við fjárlög ársins 2008 en þær væru nauðsynlegar til þess að áætlunin yrði nægilega gagnsæ. Þá kom fram að ekki væri um nýja stefnumótun að ræða í þessari áætlun.

Við í samgöngunefnd leggjum ekki til neinar stórkostlegar efnislegar breytingar á tillögunni en þó smávægilegar lagfæringar. Ef ég geri aðeins grein fyrir þeim telur nefndin nauðsynlegt að ljúka framkvæmdum við ferjubryggjuna í Flatey á Breiðafirði, en það hefur verið upplýst að viðbótarkostnaður við það sé um 14 millj. kr., og auk þess að framkvæmdum á vegarkaflanum frá Ísafjarðardjúpi og út á Drangsnes verði einnig lokið en samkvæmt upplýsingum sem nefndin hefur fengið frá gestum sem komu inn á fundinn er viðbótarkostnaður við það á bilinu 2–4 millj. kr. Við beinum því til samgönguráðuneytis að þetta tvennt verði skoðað með tilfærslum milli liða í áætluninni.

Nefndin beinir því enn fremur til samgönguráðuneytisins að rannsóknarfé til jarðganga, bæði í þéttbýli og dreifbýli, verði aukið. Í því efni þarf, auk jarðfræðirannsókna, að taka tillit til samfélagslegra þátta á borð við þéttingu byggðar, öryggissjónarmiða, umferðardreifingar og annarra atriða þegar hagkvæmni jarðganga er skoðuð.

Við leggjum til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi breytingum sem koma fram í nefndarálitinu. Hv. þm. Árni Þór Sigurðsson er samþykkur þessu áliti með fyrirvara en að öðru leyti skrifar öll nefndin undir nefndarálitið.