135. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2008.

fyrirvarafrístundabyggð.

372. mál
[15:58]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt að formaður nefndarinnar hefur lagt mikið á sig við að reyna að betrumbæta það hrófatildur sem frumvarpið er. Sannast sagna hefur sjaldan rekið á fjörur þingsins annan eins óskapnað og þetta frumvarp sem hæstv. félagsmálaráðherra lagði fram. Víst er að það hefur batnað töluvert í meðförum þingnefndar og á formaður nefndarinnar verulegan þátt í því.

Það er tvennt sem mig langar að spyrja formanninn, hv. þm. Guðbjart Hannesson, um. Hann sagði að mönnum væri heimilt að semja til styttri tíma en 20 ára, en í breytingartillögum nefndarinnar er ákvæði sem segir, með leyfi forseta:

„Óheimilt er að gera tímabundinn leigusamning um lóð undir frístundahús til skemmri tíma en 20 ára.“

Ég held einmitt í ljósi þess sem fram kom hjá hv. þingmanni að það þurfi að skoða þetta. Auðvitað þurfa lögin að vera þannig úr garði gerð að þau útiloki ekki skemmri samninga en 20 ár. Það er nokkuð langt gengið að löggjafinn mæli fyrir um það að svo skuli vera og skerði samningsfrelsi manna svo mikið sem annars yrði ef niðurstaðan yrði eins og hefur rekið hér inn í þingskjalið.

Hitt atriðið er spurningin, svo að það skýrist betur, hvernig með skuli fara varðandi framkvæmdir sem gerðar hafa verið á lóðum fyrir gildistöku laganna og hvort lögin feli í sér einhverja skyldu á landeigendur til að greiða fyrir þær framkvæmdir samkvæmt mati jafnvel þó að þeir vilji það ekki. Ég hef skilið það þannig að ákvæði laganna giltu bara til þess sem gerðist eftir að þau tækju gildi en næðu ekki yfir framkvæmdir og endurbætur sem gerðar hafi verið fyrir gildistöku laganna.