135. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2008.

viðbrögð ríkisstjórnarinnar við áliti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

[16:21]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir að þetta mál skuli vera rætt áður en þingið fer heim og að hæstv. sjávarútvegsráðherra skuli greina þinginu frá stöðu mála því að fresturinn er að renna út. Miðað við það sem fram kom hjá hæstv. ráðherra met ég það svo að ríkisstjórnin hafi ákveðið að taka álitið alvarlega þó að eflaust geti það verið umdeilt. Það hefur verið bagalegt að borist hafa mjög misvísandi skilaboð frá ríkisstjórninni fram til þessa vegna þess að ég tel að það veiki stöðu Íslands. Nú er þetta skýrara.

Hæstv. ráðherra vitnaði til nefndar sem samkvæmt stjórnarsáttmála skal skipa og mun hún fá hlutverk í tengslum við frekari vinnslu við skilgreiningu á niðurstöðu mannréttindanefndarinnar. Ég óska eftir því að flokkur minn, Framsóknarflokkurinn, fái að koma að því starfi og ég geri meira, ég býð mig fram sem formaður í þeirri nefnd. Ég tel að ef um það gæti skapast sátt mundi það leysa ákveðin vandamál fyrir stjórnarflokkana, af því að þeir gætu þá sloppið við að vera með tvíhöfða nefnd. (Gripið fram í.)

Hvað varðar álitið frá mannréttindanefndinni var orðalagið mjög óljóst og það er erfitt að ráða af texta niðurstöðunnar hversu langt við eigum að ganga. Ég fullyrði að niðurstaðan var ekki sú að við ættum að rústa íslenskan sjávarútveg og ég hef orð fræðimanns á þessu sviði fyrir því.

Hvert skyldi hlutfall sjávarútvegs og sjávarafurða hafa verið hvað varðar útfluttar vörur síðustu tvö ár? Árið 2006 51,2%, verðmæti 124,3 milljarðar, árið 2007 41,8%, verðmæti 127,6 milljarðar. Við erum að tala um grundvallaratvinnuveg þjóðarinnar og mér finnst að menn ættu að hafa það í huga þegar þeir tala gáleysislega um sjávarútveginn.