135. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2008.

raforkulög.

129. mál
[19:27]
Hlusta

Frsm. iðnn. (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Nefndin hefur fjallað um málið og skilað áliti sínu. Í því segir að efni frumvarpsins megi greina í þrennt. Í fyrsta lagi er kveðið á um skyldu flutningsaðila, dreifiveitna og vinnslufyrirtækja til að hafa tiltækar viðbragðsáætlanir við vá auk þess sem lagður er grunnur að neyðarsamstarfi þessara aðila, stórnotenda og hins opinbera á formlegum vettvangi. Í annan stað leggur frumvarpið til lækkun á eftirlitsgjaldi í þeim tilgangi að færa það nær raunkostnaði af eftirliti Orkustofnunar.

Virðulegi forseti. Við í nefndinni gerum engar breytingartillögur við þessa tvo þætti þessa máls en í þriðja lagi er lagt til í frumvarpinu að aflviðmiðun stórnotandahugtaks raforkulaga verði færð úr 14 MW í 8 MW. Um það var verulega mikið rætt í nefndinni og komu þó nokkrar athugasemdir frá umsagnaraðilum og komið hafa fram áhyggjur af því að lækkun á aflviðmiðun stórnotendahugtaksins geti haft í för með sér aukinn kostnað fyrir aðra notendur flutningskerfisins auk þess að raska innbyrðis verkaskiptingu milli Landsnetsins og dreifiveitna sem ekki er ástæða til að hrófla við nema að vandlega athuguðu máli. Hins vegar hefur verið bent á að tenging stórnotenda við Landsnetið eigi ekki að leiða til kostnaðarauka annarra notenda, samanber og þá með vísan í 8. mgr. 12. gr. raforkulaga.

Aðrir telja ósennilegt að smáir stórnotendur, þ.e. þeir sem nota afl á bilinu 8 til 14 MW, geti staðið undir byggingu nýrra flutningsvirkja, eins og kveðið er á um í áðurnefndri grein. Því varð það niðurstaða nefndarinnar, virðulegi forseti, að geyma þennan þátt málsins, taka hann út úr og leggja til þá breytingu að þessi grein verði tekin út úr frumvarpinu. Nefndin leggur hins vegar sérstaka áherslu á að hún komi til skoðunar við endurskoðun raforkulaga sem fyrirhuguð er samanber ákvæði XIII til bráðabirgða í raforkulögunum. Jafnframt, virðulegi forseti, vil ég koma inn á það hér að þetta þýðir ekki að menn hafi endilega lagst gegn þessari tillögu. Nefndin taldi hins vegar að nauðsynlegt væri að fara betur yfir hana.

Við leggjum líka til aðra breytingartillögu vegna þess að við meðferð málsins var óskað eftir því að nefndin legði til breytingu á 5. mgr. 12. gr. raforkulaga til samræmis við tillögur sem unnar voru í samvinnu fulltrúa Landsnets, Orkustofnunar og dreifiveitna. Eru þær komnar fram vegna áhrifa af gjaldskrárbreytingum Landsnets á tekjur dreifiveitna af innmötun smávirkjana. Með hliðsjón af þessum athugasemdum þessara aðila leggjum við til breytingu sem tekur á þessu og gerð er grein fyrir í nefndaráliti og líka á sérstöku skjali.

Því leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem ég hef hér gert grein fyrir.

Undir þetta ritar sú er hér stendur ásamt hv. þingmönnum Kristjáni Þór Júlíussyni, Einari Má Sigurðarsyni, Álfheiði Ingadóttur, Herdísi Þórðardóttur, Guðna Ágústssyni, sem undirritar álitið með fyrirvara, Björk Guðjónsdóttur og Grétari Mar Jónssyni.