135. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2008.

framhaldsskólar.

286. mál
[21:11]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil meina að hér séum við að greiða atkvæði í lokaatkvæðagreiðslu um nokkuð sem ég leyfi mér að kalla atlögu við framhaldsskólakerfið okkar.

Þetta frumvarp kom inn til þingsins í ósætti við þá einstaklinga sem störfuðu á vegum framhaldsskólakennara í nefndinni sem átti að semja frumvarpið. Við erum búin að fá áskoranir frá um það bil helmingi starfandi framhaldsskóla í landinu um að láta þetta mál liggja. Það er ljóst að búið er að rífa í sundur sáttina sem náðist við kennara þegar tíu punkta samkomulagið var gert. Þetta frumvarp er samið og fóstrað og samþykkt af meiri hluta Alþingis í skugga þess ófriðar sem hefur verið um þetta allt saman frá upphafi. Það er mjög miður að menn skuli ekki hafa hlustað á þau rök sem hér hafa verið færð fram fyrir því að það eigi að fara aðra leið en hér er gert.

Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sitjum hjá við framhaldsskólafrumvarp ríkisstjórnar Geirs H. Haardes.