135. löggjafarþing — 114. fundur,  29. maí 2008.

atvinnuréttindi útlendinga o.fl.

338. mál
[22:11]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Í því frumvarpi sem við erum að greiða atkvæða um sýnist mér að sé innibyggð sú skringilega mismunun að þegar útlendingar eru komnir hingað til lands og farnir að stunda atvinnu á vinnumarkaði þá búi þeir ekki við sama rétt og aðrir landsmenn vegna þess að þeim er mismunað þannig að þeir geta ekki starfað hjá fleiri en einum atvinnurekanda. Þetta tel ég algerlega óásættanlegt og ég mun ekki greiða þessu máli atkvæði eins og það liggur fyrir.

Ég get alveg tekið þátt í því eins og aðrir þingmenn að setja reglur um komu útlendinga til landsins, atvinnuleyfi þeirra og skipan en ég mismuna ekki fólki þegar það er komið inn í landið.