135. löggjafarþing — 116. fundur,  2. sept. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál.

[15:55]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mín skoðun er sú að þenslutímabilinu sé lokið. Það er alveg rétt sem kemur fram hjá hv. þingmanni, að það sem núna er alvarlegt er verðbólgan. Miðað við það að hún er að miklu leyti vegna gengisfellingarinnar sem var, þá tek ég undir orð hæstv. forsætisráðherra um að henni ætti að linna seint á þessu hausti. Það má því ekki eingöngu horfa á verðbólguna vegna þess að þá lendum við í þeirri hörðu lendingu sem við höfum viljað forðast. Ef atvinnulífinu er látið blæða, ef eingöngu er horft á verðbólgutölur eins og Seðlabankinn hefur nú gert og ekkert horft á það að atvinnulífið er að bresta í þó nokkrum mæli, þá er hætta á að við stöndum frammi fyrir því að þegar Seðlabankanum tekst loksins að koma verðbólgunni niður þá verði hrun í atvinnulífinu. Það er ekki lausn.

En ég ætla að segja við hv. þingmann að ég er sammála formanni flokks hans þegar hann spyr hver eigi að bera kostnaðinn af því að styrkja gjaldeyrisvaraforðann, þá er ég sammála hæstv. utanríkisráðherra þegar hún hefur sagt að ríkisstjórnin muni standa að baki bankakerfinu.