135. löggjafarþing — 116. fundur,  2. sept. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál.

[16:24]
Hlusta

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þar erum við aftur sammála, ég og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, að framsæknar tæknigreinar teljast líka til atvinnugreina sem mér hugnast mjög vel og nýsköpun, ég er algjörlega með því. Enda finnst mér þetta ekki snúast um að annað þurfi að útiloka hitt og hvorki Sjálfstæðisflokkurinn né ríkisstjórnin hafa talað þannig að annað þurfi að útiloka hitt.

Það er einfaldlega ekki rétt að það sé bara talað fyrir áli. Ég veit ekki betur en talað sé um að virkja orkulindirnar til þess að nýta orkuna í þágu alls kyns framkvæmda. Þar á meðal gagnaveitu og annarra verkefna sem eru þingmanninum meira að skapi. (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður fagnar aflþynnuverksmiðju. Það er allt í lagi að virkja. Það er allt í lagi að virkja og að selja orku svo framarlega sem það er ekki fyrir álið. Er það sem sagt atvinnustefna vinstri grænna? Hann segir að þeir fái ekki rafmagnið í gagnaveiturnar. En það er líka af því að það eru vandkvæði að virkja í neðri hluta Þjórsár. Ég vil því spyrja hv. þingmann, virðulegi forseti: Er allt í lagi að virkja bara svo framarlega sem það er ekki ál?