135. löggjafarþing — 116. fundur,  2. sept. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál.

[16:59]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ekki veit ég alveg hvernig mér ber að skilja svar hv. þingmanns í þessum efnum. Hér er enn leikinn sá leikur að það tala, að mér finnst, margir menn í einu í ræðupúltinu. Annars vegar er talað fyrir því að það hafi verið eðlilegt hjá ríkisstjórninni að reyna að koma hjólum atvinnulífsins og hjólum fasteignamarkaðarins af stað en á hinn bóginn megi alls ekki efna til þenslufyllirís.

Nú veit ég að hv. þm. Árni Páll Árnason hefur mikla trú á okkur framsóknarmönnum. Þeirri trú deili ég með honum en hún er þó ekki það mikil að ég haldi að Framsóknarflokknum tækist við núverandi aðstæður að koma á einhverju þenslufylliríi. Það eru grafalvarlegir tímar fram undan og það eru engar líkur á því að tilslökun á hinni aðhaldssömu stefnu Seðlabankans mundi leiða til einhverrar ofþenslu í samfélaginu. Ég hefði gaman af að vita hvort hv. þm. Árni Páll Árnason telur virkilega að hætta sé á slíkri (Forseti hringir.) ofþenslu í íslensku samfélagi á komandi vetri.