135. löggjafarþing — 116. fundur,  2. sept. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál.

[17:35]
Hlusta

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil eins og aðrir sem hafa talað þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram og sérstaklega vil ég færa forsætisráðherra þakkir fyrir þá skýrslu sem hann flutti í upphafi umræðunnar. Að mínu mati var hún greinargott yfirlit, bæði yfir þann vanda sem við stöndum frammi fyrir og eins líka þær aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur gripið til á undanförnum mánuðum og missirum til að mæta þeim vanda sem að okkur steðjar. Það er skoðun mín að ein af þeim niðurstöðum sem hafa fengist hér í umræðunni í dag sé sú að um allt tal um aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar, að ríkisstjórnin hafi sofið á verðinum, að ríkisstjórnin hafi ekki skynjað vandann og ekki gert sér grein fyrir því hvernig ætti að mæta honum, muni sá tónn breytast mjög hjá stjórnarandstöðunni. Það er eðlilegt að stjórnarandstaðan hafi uppi gagnrýni um efnahagsstjórn, það er hlutverk hennar, en það er líka mjög mikilvægt við þær aðstæður sem eru að myndast nú í hagkerfinu að sú gagnrýni sé uppbyggileg og þjóni þeim tilgangi að leiða fram þær bestu lausnir sem við getum gripið til til þess að mæta þeim vanda sem við stöndum nú frammi fyrir.

Við höfum líka hér í dag reynt að greina þann vanda sem uppi er. Ég er þeirrar skoðunar að við verðum að horfast í augu við það að eitt af því sem hefur farið úrskeiðis á undanförnum árum er að ríkisútgjöld hafa vaxið alveg óhóflega hér á landi, langt umfram það sem var eðlilegt. Það setur auðvitað suma stjórnarandstæðinga í erfiða stöðu af því að flestir stjórnarandstæðingar hafa kallað eftir auknum ríkisframkvæmdum á undanförnum árum, auknu framlagi til menntamála, auknu framlagi til heilbrigðismála, vegamála og allra þeirra málaflokka sem menn vilja svo gjarnan styðja við. En það hefur þýtt það að ríkisútgjöldin hafa aukist með þeim hætti sem raun ber vitni.

Ég er einnig þeirrar skoðunar að sú stefna sem hefur verið uppi varðandi Íbúðalánasjóð hafi gert okkur vandann erfiðari að fást við. Það gengur auðvitað ekki og getur ekki gengið til lengdar að ríkið setji út peninga með annarri hendinni á ákveðnu vaxtastigi, reyni að hafa vextina háa til að stöðva verðbólgu, en láni með hinni hendinni peninga á allt öðru vaxtastigi. Það kemur fyrst og síðast niður á þeim sem tóku þau lán vegna þess að þegar svona misvægi myndast kemur það út í verðbólgu og verðbólgan er hættulegasti óvinur alls launafólks. Það er verið að plata fólk með því að halda því fram að það hafi það betra með því að lána því peninga út úr Íbúðalánasjóði með þessum lágu vöxtum þegar afleiðingin verður síðan sú að verðbólgan hleypur upp.

Það er líka annað sem ég hef sannfæringu fyrir, við þurfum að líta mjög nákvæmlega á stefnu Seðlabankans. Á undanförnum árum hafa menn bent á það að sú stefna sem þar er fylgt, sú aðferðafræði og sú hugsun, mundi fyrr eða síðar lenda á vegg. Ég tel að staðan sé sú að Seðlabankinn, sem lýtur nú lögum sem snúa að því að gengið eigi að ráðast á markaði og vextir eigi að bera mark af efnahagsstarfseminni, framboði og eftirspurn — að menn séu komnir í þá stöðu sem enginn hafði látið sér detta í hug að ætti að vera möguleg, að menn séu að reyna að stýra genginu með vaxtastiginu. Það segir sig sjálft að auðvitað getur það ekki gengið nema í örskotsstund og því hljótum við að velta fyrir okkur af mikilli alvöru til hvaða ráða við þurfum að grípa þar.

Hávaxtastefnan hefur, því miður, af því að þannig eru aðstæður hér á Íslandi — við höfum þessa verðtryggðu krónu, við höfum þennan opna fjármálamarkað, við höfum þennan stóra hluta af lánum landsmanna í erlendri mynt — gert það að verkum, þessi mikli vaxtamunur, að innflutningur til landsins hefur verið of ódýr, kaupmáttur þjóðarinnar hefur með öðrum orðum vaxið umfram það sem eðlilegt er. Ef maður skoðar hver aukningin hefur verið í framleiðni og ber síðan saman við kaupmáttaraukninguna sést auðvitað að með því að hafa gengið svona sterkt hefur verið búinn til falskur kaupmáttur. Þegar við hér úr þessum ræðustóli höfum áhyggjur af því að kaupmáttur almennings muni rýrna verðum við að horfa til þess að hluti af þeim kaupmáttarauka sem við höfum notið hefur m.a. verið til kominn vegna þessarar stöðu. Fram hjá því verður ekki litið að þegar olía hækkar í verði á heimsmarkaði, þegar matvæli hækka í verði á heimsmarkaði og þegar hrávara hækkar í verði á heimsmarkaði hefur það að segja um lífskjörin á Íslandi. Ef maður ætlar að reyna að plata sig fram hjá því, ef maður ætlar að reyna að koma í veg fyrir að það komi inn í landið, er bara verið að fresta vandanum og gera hann erfiðari. Vandinn með þá hávaxtastefnu sem hefur verið í gangi er líka sá að þar með varð útrásin ódýrari, það var betra að taka íslenskar krónur, breyta þeim í evrur eða dollara og fjárfesta erlendis. (SJS: Niðurgreitt.) Þessi stefna hefur því valdið okkur töluvert miklum vandræðum.

Staðan er þessi: Seðlabankinn vinnur eftir þeim lögum sem við settum hér í þingsal árið 2001, hann hefur þetta eina stjórntæki sem eru vextirnir og þar af leiðandi getur hann alveg haldið því fram með réttu að hann hafi ekki aðra möguleika. En ég er þeirrar skoðunar að það séu ákveðin efri mörk á því hversu mjög menn geta hækkað vextina á Íslandi umfram það sem þeir eru í öðrum löndum, þ.e. ef vaxtamismunurinn verður of hár leiðir hann af sjálfum sér til vandamála í okkar hagkerfi. Þetta er eitt af þeim stóru verkefnum sem við stöndum frammi fyrir og ég held því fram að það sé mikill misskilningur að halda að það leysist bara með því að við tökum upp evru, það er ekki þannig. Þeir sem fylgjast með fréttum erlendis frá, fylgjast með umræðu um efnahagsmál á Írlandi, Spáni eða annars staðar sjá að það er ekkert allt unnið með því. Það eru gríðarleg efnahagsleg vandamál sem geta myndast við það að hafa mynt sem ekki er í takt við eigið hagkerfi. Þeir sem halda að íslenska hagkerfið sé nær hagsveiflu Evrópusambandsins en t.d. það írska eða spænska gætu lent í afskaplega óþægilegum uppgötvunum innan ekki svo langs tíma frá því ef við tækjum upp evru.

Síðan er auðvitað hitt að það eru ákveðin vandamál sem við stöndum frammi fyrir sem snúa að okkur sjálfum sem ég tel að við getum leyst. Við höfum allar forsendur til að leysa þau og ríkisstjórnin hefur unnið hörðum höndum að því að koma á því jafnvægi sem að henni snýr. Staðan er hins vegar sú að alþjóðlega lánsfjárkreppan verður ekki leyst hér á Íslandi en hún hefur alveg gríðarleg áhrif á okkar stöðu, hún hefur fyrst og síðast áhrif á íslenska bankakerfið. Hún veldur því að bankarnir eiga erfiðara með að fjármagna sig og áhættan af rekstri þeirra er meiri en ella. Við verðum raunverulega að bíða og vona að þessi kreppa leysist sem fyrst. Ef hún leysist ekki mun hún valda okkur meiri og meiri vandamálum

Ríkissjóður er vel settur til þess að fást við þessi vandamál vegna þess að sú stefna hefur verið rekin að greiða upp skuldir hans og menn hafa aukið tekjurnar með því að auka hvatann í hagkerfinu með skattalækkunum og öðru slíku.

Fyrirtækin eru því miður mörg hver mjög illa sett og illa í stakk búin til að mæta þessum vanda. Það má halda því fram að margir af forustumönnunum í íslensku atvinnulífi hafi farið offari í rekstri fyrirtækja með því að allt að því hreinsa út eigið fé í sumum þeirra og gera þau mjög viðkvæm einmitt fyrir þessari tegund af kreppu sem við nú stöndum frammi fyrir. Hið sama má segja með fjármálafyrirtækin, vöxtur þeirra hefur verið alveg gríðarlegur, hann hefur reyndar verið á bakinu af því að menn hafa litið svo á að íslenska ríkið mundi ábyrgjast þessa banka og þess vegna hafa þeir líka að hluta til getað tryggt sér erlent fjármagn á lægri kjörum, en þeir eru orðnir það stórir núna að menn hljóta að velta fyrir sér þessu samhengi, eins og þingmenn hafa gert hér í dag, á milli Seðlabankans og getu hans og síðan starfa bankakerfisins. Þetta er eitt af þeim vandamálum sem erlenda lánsfjárkreppan eykur og magnar upp.

Spurningin er síðan þessi: Hvað getum við gert? Það eina sem við höfum virkilega í höndunum núna er að nýta okkur það tækifæri sem við höfum í orkuiðnaði og þeim atvinnutækifærum sem svo sannarlega eru til staðar í landinu. Við erum bara svo blessuð og heppin þjóð að búa yfir svo gríðarlegri orku sem er bæði græn og endurnýjanleg að stórum hluta og er þess eðlis að við setjum hana ekki bara í tunnur og flytjum hana út. Þeir sem vilja nýta orkuna hér á Íslandi þurfa að koma til okkar og fjárfesta í íslensku samfélagi. Þetta er alveg stórkostleg gæfa fyrir eina þjóð að hafa og það er alveg furðulegt að láta sér detta í hug að við eigum að ekki að nýta okkur þessa gæfu.

Framtíðin fyrir íslenskt samfélag er mjög björt. Ég hef alla trú á því að við eigum eftir að sjá á næstu árum og áratugum öflugt, og öflugra, íslenskt samfélag. Það sem við þurfum að gera núna er að færa þá framtíðarsýn inn í núið, við þurfum að sannfæra hinn erlenda fjármálamarkað, við þurfum að sannfæra sjálf okkur um það að við komust í gegnum þann skafl sem við núna stöndum frammi fyrir. Það er aðalatriðið, það er meginverkefni stjórnvalda og ég tel að á undanförnum mánuðum hafi ríkisstjórn Íslands, undir forustu Geirs H. Haardes, hæstv. forsætisráðherra, sýnt að þar er til staðar öll sú geta og öll sú ábyrgð sem nauðsynleg er. Og ekki bara þar, ég tek líka fram að ég tel að verkalýðshreyfingin, bændurnir og fleiri sem að þessum málum hafa komið nú á undanförnum mánuðum hafi sýnt mikla ábyrgð í málflutningi sínum. Því eigum við að fagna og við eigum að nýta þá samstöðu sem við getum náð saman í okkar samfélagi, bæði hér í þessum þingsal í samvinnu stjórnar og stjórnarandstöðu og síðan á milli þeirra aðila sem mest hafa um það að segja hvernig okkur gengur að komast í gegnum þau vandamál sem fram undan eru.