135. löggjafarþing — 117. fundur,  3. sept. 2008.

bankamál.

[13:34]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Ég ætla að beina orðum mínum til hæstv. forsætisráðherra og ræða aðeins bankastarfsemi. Bankar eru gríðarlega mikilvægir hverri þjóð og það er engin spurning í mínum huga að bankarnir á Íslandi hafa orkað miklu á síðustu árum og skapað störf og mikil tækifæri fyrir Íslendinga í framtíðinni þó að þar hafi auðvitað orðið fall á eins og hjá bisnessmönnum seinni ára. Þeir verða auðvitað að bera ábyrgð á sínu tapi og engin ástæða í sjálfu sér til að vorkenna þeim en bankar eru mikilvægir og þeir þurfa að fá afl til að starfa áfram. Þeir hafa auðvitað fengið glýju í augun af gullinu og á mörgum sviðum gengið langt.

Það sem ég ætlaði að minnast á við hæstv. forsætisráðherra er það að þegar bankarnir voru einkavæddir var dálítið rætt um það hvort viðskiptabanki og fjárfestingarbanki ættu að vera í einu og sama fyrirtækinu. Nú hefur þetta þróast með þeim hætti hér að stærð fjárfestingarbankanna er gríðarleg í bankakerfinu, ég hygg hátt í 80% en viðskiptabankarnir eru u.þ.b. 20%. Maður verður því mjög var við það að sú spurning er áleitnari hvort banki sé hlutlaus við þær aðstæður þegar hann er fjárfestingarbanki í leiðinni og á orðið fyrirtæki og rekur, gagnvart viðskiptavinum sínum og fyrirtækjum í ráðleggingum og ráðgjöf. Ég hef sett það fram að það þurfi í rauninni að fara vel yfir þetta faglega, hvort þetta eigi að vera með þessum hætti eða hvort við eigum að stíga ný skref til að skapa öryggi bæði fyrir viðskiptavini og fyrirtækin í hlutleysi. Ég spyr því hæstv. forsætisráðherra hver sé hugsun hans í þessu efni og hvort hann hafi hugleitt þetta mál.